Er „ósamræmi“ í máli í eðli sínu vont?

Í umræðu um tvenns konar fleirtölu orðsins Japani sagði Árni Böðvarsson í bókinn Íslenskt málfar: „En það er illt að rugla saman þessum beygingum og nota til dæmis Japanar í nefnifalli og svo Japani í þolfalli. Slíkt bendir til málkenndar sem eftir er að þroska betur.“ Ég veit reyndar ekki hvort til er fólk sem beygir fleirtölumyndir orðsins Japani á þennan hátt, en miðað við hvernig nefnifallsmyndirnar Japanar og Japanir eru notaðar til skiptis í sömu greinum eins og ég hef skrifað um finnst mér það mjög líklegt. En vissulega er það rétt að slík beyging væri óvenjuleg – reglan er að sama sérhljóð sé í endingum nefnifalls og þolfalls fleirtölu í íslenskum karlkynsnafnorðum. Við segjum hestar um hesta, gestir um gesti, nemendur um nemendur.

Þetta er samt ekki algilt. Mörg karlkynsorð með viðskeytinu -leik- eiga sér tvímyndir, veika og sterka – sannleiki og sannleikur, kærleiki og kærleikur, biturleiki og biturleikur, einfaldleiki og einfaldleikur, o.fl. Veiku og sterku myndirnar beygjast á mismunandi hátt – sú veika endar á -a í öllum aukaföllum eintölu (sannleiki sannleika), en sú sterka er endingarlaus í þolfalli og þágufalli en fær -s-endingu í eignarfalli (sannleikur – sannleiksannleiks). Og þó – þetta er vissulega sú beyging sem búast mætti við út frá kerfinu en í sumum þessara orða, a.m.k. sannleiki /sannleikur, blandast þetta venjulega saman – við segjum yfirleitt sannleikurinn er sagna bestur, en hins vegar segðu sannleikann og þetta er sannleikanum samkvæmt.

Í fyrsta dæminu er beygingin sterk en veik í þeim seinni. Þarna blandast sem sé saman beyging tveggja orða – eða tveggja beygingaflokka, eftir því hvernig við lítum á þetta – án þess að við tökum eftir því eða það trufli okkur nokkuð. Hins vegar hljómar það undarlega að nota veiku beyginguna í sannleikinn er sagna bestur og þá sterku í segðu sannleikinn og þetta er sannleiknum samkvæmt. (Svo má bæta því við að sterka myndin er notuð í samsetningum – sannleiksást, sannleikskorn, ekki *sannleikaást, *sannleikakorn.) En í raun er þessi beyging sem flestum er eðlileg, sannleikur um sannleika í stað sannleikur um sannleik eða sannleiki um sannleika, alveg hliðstæð við það að beygja Japanar um Japani – eða Japanir um Japana.

Fjölmörg svipuð dæmi má nefna og ég hef skrifað um þau sum, eins og þágufallið greftri og eignarfallið graftrar sem „ætti“ að vera grefti og graftar; eignarfallið jarðgangna sem „ætti“ að vera jarðganga; fleirtölumyndirnar fæturnar og fingurnar sem „ættu“ að vera fæturna og fingurna; o.m.fl. Vissulega ber ekki að gera lítið úr reglum málsins – þær eru ekki síst mikilvægar fyrir börn á máltökuskeiði og auðvelda þeim það risavaxna verkefni að læra móðurmál sitt á fáum árum. En „óregla“ eins og hér hefur verið til umræðu ber samt alls ekki vott um óþroskaða málkennd heldur eru þetta einfaldlega eðlileg tilbrigði í málinu sem sýna að kerfið er ekki alltaf jafn reglulegt og málfræðingum hættir til að halda – eða telja fólki trú um.