Kynskiptingar

Orðið fótur er vitanlega karlkynsorð og aldrei neitt annað – í eintölu. Fleirtalan, fætur, er hins vegar iðulega höfð í kvenkyni – fæturnar. Þetta er ekki nýtt – dæmi eru um kvenkynið a.m.k. frá 16. öld. Á tímarit.is má sjá að myndin fæturnar hefur verið algeng síðan seint á 19. öld þótt dæmum um hana hafi heldur fækkað á síðustu áratugum ef eitthvað er. Þar er líka fjöldi dæma um báðar fætur allt frá miðri 19. öld. Lengi hefur verið barist gegn þessari breytingu; „má óhætt fullyrða, að fyrr megi misþyrma málinu, en svo langt sé gengið“ segir í blaði frá 1939. En hvernig má skýra hana?

Endingin -ur í nefnifalli fleirtölu er langalgengust í kvenkyni – einkennir stærsta beygingarflokk kvenkynsorða, veiku beyginguna, t.d. saga – sögur, kona – konur, vika – vikur o.s.frv. Það er sennilegt að kvenkynið á fætur megi m.a. rekja til áhrifa þessara orða. Við það bætist að hljóðavíxlin ó-æ eru hliðstæð því sem er í kvenkynsorðum eins og bók – bækur, nótt – nætur, brók – brækur o.fl. Enn má nefna að oft er í sömu andrá minnst á hendur og fætur, og hönd er auðvitað kvenkynsorð. Það er því ýmislegt sem getur haft áhrif í þá átt að málnotendum finnist fætur vera kvenkyn.

En þótt orðið fótur sé oftast notað sem dæmi um karlkynsorð sem stundum verði kvenkyns í fleirtölu fer því fjarri að þetta sé eina orðið sem svo er háttað um. Sömu tilhneigingar gætir hjá ýmsum öðrum karlkynsorðum sem enda á -ur í nefnifalli fleirtölu – fingur, bændur, og svo orðum sem dregin eru af lýsingarhætti nútíðar; nemendur, eigendur o.fl. Á tímarit.is er hægt að finna allmörg dæmi um fingurnar, bændurnar, nemendurnar, eigendurnar o.s.frv. – allt frá 19. öld til þessa dags. Málnotendur virðast því tengja fleirtöluna -ur við kvenkyn eins og áður er nefnt, en við það bætist að þolfall fleirtölu í karlkynsorðum með -ur-fleirtölu er eins og nefnifallið, og það er einkenni kvenkynsorða, en þekkist ekki í öðrum karlkynsorðum en þessum.

Vissulega má það virðast undarlegt að orð skipti um kyn eftir því í hvaða tölu þau standa. Þess eru þó dæmi að slíkt sé viðurkennt og þyki eðlilegt mál. Þekktasta dæmið er foreldri, sem er hvorugkynsorð í eintölu, en fleirtalan foreldrar er karlkyns. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt eintöluna notaða í mínu ungdæmi, þótt hún hafi vissulega verið til þegar í fornu máli og eitthvað notuð alla tíð samkvæmt tímarit.is (fram um miðja 20. öld reyndar langmest í vesturíslensku blöðunum). En með ýmsum þjóðfélagsbreytingum á seinni hluta 20. aldar jókst þörfin á að tala um annað foreldra án þess að tilgreina föður eða móður, og þá margfaldaðist notkun eintölunnar foreldri.

Annað dæmi er orðið fræði. Það er vissulega gefið upp sem tvö orð í orðabókum – annars vegar kvenkynsorðið fræði sem er sagt bara til í eintölu (málfræði, stærðfræði) og hins vegar hvorugkynsorðið fræði sem er sagt bara til í fleirtölu (íslensk fræði, kristin fræði). Merkingin er þó nánast sú sama, og ég sé því enga ástæðu til annars en líta á þetta sem eitt og sama orðið sem skipti um kyn eftir tölu. Er nokkuð að því að fætur geri það líka?