Opna og loka hurð eða dyrum

Því er oft haldið fram að það sé „órökrétt“ (og þar af leiðandi rangt) að tala um að opna hurðina og loka hurðinni – við opnum ekki hurðina eða lokum henni, heldur opnum dyrnar og lokum þeim með hurðinni. Það er þó ljóst að í fornu máli kemur fyrir fjöldi dæma um að opna, loka og ljúka upp hurðum eins og sjá má í dæmasafni forníslensku orðabókarinnar í Kaupmannahöfn (stafsetningin gæti þvælst fyrir mörgum). Dæmin með hurð á tímarit.is eru líka svo mörg og svo rótgróin, frá 19. öld og allar götur síðan, að það er ansi hæpið að kalla þetta rangt mál.

En það er forvitnilegt að skoða notkun þessara sambanda og ég fletti upp á tímarit.is nokkrum algengustu myndum þeirra. Á meðfylgjandi mynd má sjá tíðni þeirra sambanda sem ég skoðaði. Í næstaftasta dálki sést samanlagður fjöldi dæma með hurð og dyr, og í þeim aftasta sést hlutfall dæma um hurð af heildinni. Þá kemur fram að í fyrstu þremur línunum, þar sem ótvírætt er um sagnmyndir að ræða, er hlutfall dæma um hurð með loka kringum 38%, en talsvert lægra með opna, eða kringum 26,4%. Það er sem sé talsvert algengara hlutfallslega að tala um að loka hurð en opna hurð.

Það er rétt að hafa í huga að sagnirnar opna og loka fela vitanlega í sér hreyfingu eða breytingu á ástandi, og það er óneitanlega staða hurðarinnar sem breytist en ekki dyranna. Þess vegna er ekki augljóst að einhver rökleysa felist í því að nota hurð í þessum samböndum. En munurinn á loka og opna er athyglisverður og ég hef á tilfinningunni að hann sé ekki tilviljun. Þegar þarf að loka hurðinni/dyrunum er hurðin og hreyfing hennar meira í fókus en þegar þarf að opna hurðina/dyrnar beinist athyglin meira að dyrunum.

Þetta styrkist enn frekar þegar skoðuð eru dæmi með lýsingarorði, lokuð/opin hurð og lokaðar/opnar dyr. Það eru sárafá dæmi um hurð í slíkum samböndum. Þar er um kyrrstöðu að ræða, verið að lýsa ástandi en ekki hreyfingu. Vegna þess að hreyfingin virðist vera forsenda þeirrar tilhneigingar að nota hurð fremur en dyr með loka og opna er eðlilegt að þeirrar tilhneigingar gæti lítið þegar hreyfingin er ekki til staðar.