Ný orð, tæk og ótæk

Eitt algengasta umfjöllunarefnið í Málvöndunarþættinum á Facebook er orð sem fólk hefur rekist á og kannast ekki við eða fellir sig ekki við. Það er ósköp eðlilegt – flest orð orka framandi og jafnvel fráleit þegar maður heyrir þau eða sér í fyrsta skipti. Það er haft eftir Halldóri Halldórssyni prófessor sem var öflugur nýyrðasmiður að maður þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. Þið getið prófað það.

Sum nýyrði slá þó strax í gegn, eins og t.d. þota sem kom fram 1956 og leysti af hólmi langlokuna þrýstiloftsflugvél eins og þetta fyrirbæri hét þegar ég man fyrst eftir (og maður þekkti þá aðeins sem hvít strik sem sáust oft á himninum í heiðskíru veðri). Á tímarit.is má glöggt sjá hvernig þrýstiloftsflugvél nánast hverfur úr málinu á örfáum árum. En önnur orð eiga erfiðara uppdráttar og oft ómögulegt að spá fyrir um lífvænleik nýrra orða – eða átta sig á því hvers vegna sum komast í almenna notkun en önnur ekki.

En vissulega eru ný orð af ýmsum toga og falla misvel að málinu. Stundum koma fram orð sem ekki eru mynduð í samræmi við reglur málsins – að sumra mati a.m.k. Nýlega var hér minnst á nafnorðið horfun sem er dregið af sögninni horfa – til samræmis við hlustun, af hlusta – og var mikið notað í fáein ár kringum 1990 en er nú næstum gleymt. Ýmsir ömuðust við þessu orði vegna þess að viðskeytið –un tengist venjulega aðeins sögnum sem enda á –aði í þátíð – sem horfa gerir ekki.

Annað dæmi má taka af því þegar enska orðið like (á samfélagsmiðlum) er tekið upp í íslensku sem hvorugkynsorðið læk. Í fljótu bragði virðist það falla ágætlega að málinu – í því eru engin framandi hljóð eða hljóðasambönd, og enginn vandi er að beygja það. Þeir sem hafa næga málsöguþekkingu átta sig hins vegar á því að þetta orð gæti ekki verið íslenskt að uppruna vegna þess að af sögulegum ástæðum (sem hér er óþarfi að fara út í) hafa einkvæð hvorugkynsorð aldrei æ í stofni. Hvorugkynsorð með æ eru tvíkvæð og enda á –i, s.s. kvæði, færi, tæki o.s.frv.

Athugið að hér er ég ekki að tala um reglur sem fólk hafi lært í skóla, heldur óskráðar reglur, mynstur tungumálsins – reglur sem fólk tileinkar sér ómeðvitað á máltökuskeiði. Spurningin er hins vegar hvort almennir málnotendur hafi tilfinningu fyrir þessum tveimur áðurnefndu reglum. Hvers vegna amast sumir við nýjum orðum eins og horfun og læk? Er það vegna þess að þeir hafi tilfinningu fyrir því að þessi orð falli ekki fullkomlega að íslensku – eða er það bara vegna þess að þau eru ný og þar af leiðandi framandi (og læk að auki tökuorð)?

Ég kann ekki svarið við þessu – og ekki er víst að það sama gildi um báðar áðurnefndar reglur. En ef það þarf sérstaka málsöguþekkingu til að átta sig á því að tiltekin orð falla ekki fullkomlega að málkerfinu – er þá einhver ástæða til að amast við þeim? Falla þau þá ekki að því málkerfi sem núlifandi málnotendur búa yfir – og verður það ekki að ráða, frekar en málkerfi 13. aldar?