Framsetning málfarsábendinga

Sjálfsagt þykir mörgum nóg um þá löngu pistla sem ég hef verið að moka inn í Málvöndunarþáttinn á Facebook að undanförnu og finnst ég vera búinn að yfirtaka hópinn. Mér þykir leitt ef svo er. Ástæðan fyrir skrifum mínum er sú að mér fannst andinn í hópnum oft óþarflega neikvæður og vildi kanna hvort hér væri áhugi á umræðu og fræðslu um íslenskt mál sem ekki fæli endilega í sér ábendingar um villur, umvandanir eða hneykslun á málfari annarra.

Þegar fólk rekst á orð eða málnotkun sem því finnst framandi eða fellir sig ekki við er eðlilegt og sjálfsagt að skoða og ræða hvers eðlis þetta er – hvort um sé að ræða hreina villu sem stafi af fljótfærni eða óvönduðum vinnubrögðum, eða einhvers konar nýjung í málinu, svo sem nýtt orð, nýtt orðalag, nýja setningagerð o.s.frv. En mikilvægt er að þetta sé gert í formi fyrirspurna og vinsamlegra ábendinga. Mér sem málfræðingi finnst gaman að slíkum innleggjum og reyni oft að bregðast við þeim og miðla fræðslu ef kostur er.

En öðru máli gegnir um innlegg sem eru fyrst og fremst til þess fallin að hneykslast á málnotkun annarra og fá staðfestingu á þeirri fullvissu höfundar innleggsins að hann hafi rétt fyrir sér og tali rétt mál. Mér finnst fráleitt og fullkomlega tilgangslaust að amast við málbreytingum sem hafa komið upp fyrir mörgum áratugum eða jafnvel öldum – málfari sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og er órjúfanlegur hluti af málkerfi þess.

Ég er nefnilega sannfærður um að fordómalaus umræða um íslensku og jákvætt viðhorf til málsins er mikilvægasta forsenda þess að það lifi áfram – ekki hvort við segjum mig eða mér langar, ég vil eða vill, hvor við annan eða við hvorn annan, kvalinn eða verkjaður, spá í þetta eða þessu, opna dyrnar eða hurðina, leggja eða byggja veg, til byggingu eða byggingar, báðir fæturnir eða báðar fæturnar, læknaritari eða heilbrigðisgagnafræðingur – svo að tekin séu örfá dæmi af atriðum sem hér hafa verið til umræðu að undanförnu.

Eftir því sem við áttum okkur betur á fjölbreytni íslenskunnar eftir aldurshópum, þjóðfélagshópum, landshlutum og tímabilum sjáum við betur að sú íslenska sem við ólumst upp við er ekki eina hugsanlega íslenskan – og ekki einu sinni endilega eina rétta íslenskan. Það hafa alla tíð verið ýmis tilbrigði í íslenskunni og notkun hennar. Hún þolir það vel og hefur alveg lifað það af – og í raun eru það þessi tilbrigði sem hafa haldið í henni lífinu. Hún hefur lagað sig að þörfum hvers tíma og verður að fá að halda áfram að gera það.