Erlendis

Meðal þess sem oftast eru gerðar athugasemdir við í málfarsþáttum er notkun atviksorðsins erlendis. Það hefur lengi verið kennt að það geti einungis táknað kyrrstöðu, dvöl á stað, en ekki hreyfingu, ferð til staðar. Í Málfarsbankanum segir: „Atviksorðið erlendis merkir: í útlöndum. Það er því eðlilegt að segja dveljast erlendis en aftur á móti ekki „erlendis frá“ og „fara erlendis“. Gísli Jónsson amaðist líka margsinnis við þessu í íslenskuþáttum sínum í Morgunblaðinu. En á hverju byggist þessi regla?

Í fornu máli var orðið notað bæði um dvöl og hreyfingu eins og dæmi forníslensku orðabókarinnar sýna glöggt. Flest af elstu dæmum Ritmálssafns Orðabókar Háskólans um orðið, frá 18. og 19. öld, sýna líka sambandið fara erlendis. Á tímarit.is má finna á þriðja þúsund dæma um fara erlendis og á þriðja tug þúsunda dæma um erlendis frá, allt frá því snemma á 19. öld til þessa dags.  Ekki minni maður en Jónas Hallgrímsson skrifar í minningargrein um Tómas Sæmundsson í Fjölni: „Enn er herra Steingrímur varð að fara erlendis vetrarlángt að taka biskupsvígslu í Danmörku, kom hann Tómasi í Bessastaða-skóla.“

Ég veit ekki hvenær eða hvers vegna farið var að amast við því að nota erlendis í hreyfingarmerkingu. Elsta dæmi sem ég finn um það í fljótu bragði er í Alþýðublaðinu 1976, þar sem Guðni Kolbeinsson skrifar: „Orðið erlendis er staðaratviksorð sem felur í sér dvöl en ekki hreyfingu. Því telst rangt að tala um að fara erlendis eða senda einhvern erlendis. Hægt er að dveljast erlendis, fara utan eða til útlanda, og á sama hátt senda einhvern utan eða til útlanda.“ Ég þykist samt viss um að andstaðan við þessa notkun erlendis eigi sér miklu lengri sögu. En á hverju byggist hún?

Ég hef séð það tilfært sem rök gegn hreyfingarmerkingu erlendis að atviksorð sem enda á -is tákni venjulega dvöl á stað en ekki hreyfingu til staðar. Það kann að vera algengast en er þó ekki algilt – við segjum t.d. falla útbyrðis og ganga afsíðis þar sem augljóslega er um hreyfingu að ræða. Ég hef líka séð því haldið fram að eitt og sama -is-orðið geti ekki merkt bæði dvöl á stað og hreyfingu til staðar. Það er ekki heldur rétt – við getum talað um sjóinn umhverfis Ísland þar sem um kyrrstöðu er að ræða en einnig siglingu umhverfis Ísland þar sem um hreyfingu er að ræða. Sama máli gegnir um hið gamla en sjaldgæfa orð umkringis.

Rökin fyrir því að erlendis merki ekki 'til útlanda' er því ekki hægt að sækja til málsögunnar – orðið hefur getað haft þessa merkingu allar götur síðan á 13. öld. Rökin geta ekki heldur byggst á málvenju – það er augljóst að orðið merkir 'til útlanda' í máli mikils fjölda fólks eins og sést á dæmum á tímarit.is, og ekki síður af því hversu oft eru gerðar athugasemdir við að fólk noti orðið í þessari merkingu. Og rökin er ekki heldur hægt að sækja til orðmyndunarinnar – fordæmi eru fyrir því að -is-orð merki bæði dvöl og hreyfingu.

Notkun erlendis í merkingunni 'til útlanda' getur ekki heldur valdið misskilningi því að sögnin sem atviksorðið stendur með sker alltaf úr um það hvort um dvalar- eða hreyfingarmerkingu sé að ræða. Ég sé ekki betur en einu rökin gegn því að nota orðið í hreyfingarmerkingunni séu þau að það hefur verið kennt undanfarna áratugi að það sé rangt. En eru það nægileg rök?