Miðstig

Í Íslenzkri setningafræði Jakobs Smára frá 1920 segir: „Miðstig er stundum notað í líkri merkingu sem frumstig – einhver samanburður stendur óljóst fyrir hugskotssjónum þess, er talar.“ Sem dæmi um þetta tekur Jakob Smári setningar eins og þótti þeim mjög brugðið til hins betra og þessi kona var hnigin á efra aldur, bæði úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar; og orðatiltæki eins og af skárra taginu og velja ekki af verri endanum, sem hann segir daglegt mál. En svo bætir hann við: „Að nota eldri í merkingunni 'roskinn' er mjög óvenjulegt, nema helst í Reykjavík (og líklega dansk‑þýskt að uppruna), enda getur þar varla verið um nokkurn samanburð að ræða. Dæmi: við húsmóður sína, er var eldri kona.“

Þetta dæmi er líka tekið úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar sem komu fyrst út 1862‑4, þannig að þessi notkun er ekki ný af nálinni, og varla bundin við Reykjavík lengur, hafi hún einhvern tíma verið það. En það er stundum amast við henni enn í dag, og hún sögð órökrétt því að miðstig feli í sér samanburð, en þarna sé ekki um neinn samanburðarlið að ræða. Það sé hægt að segja hann er yngri maður en ég, því að þar er viðmið fyrir hendi; en ekki hann er yngri maður.

Það er rétt að miðstig felur í sér samanburð. En þegar betur er að gáð gerir frumstig lýsingarorða það líka, þótt okkur sjáist oftast yfir það. Munurinn er bara sá að miðstigið felur oftast í sér samanburð við tiltekinn einstakling eða hóp, en í frumstigi er borið saman við eitthvert meðaltal, staðal, eðlilegt ástand, norm, eða hvað á að kalla það. Við getum væntanlega verið sammála um að þrjátíu vetra hestur sé gamall, en þrítugur maður sé það ekki. Samt eru báðir jafn gamlir, þ.e. þrítugir. Hvernig stendur þá á því að við segjum að annar sé gamall en hinn ekki?

Ástæðan er sú að lýsingarorð eins og gamall hefur ekki fasta merkingu, heldur afstæða; merking þess fer eftir orðinu sem það er notað með. Ef við segjum hesturinn er gamall merkir það því 'Hesturinn er gamall miðað við það sem hestar verða', eða eitthvað í þá áttina. Þessi maður er gamall merkir 'gamall miðað við meðalæviskeið manna'. Þetta er ástæðan fyrir því að hægt er að nota sama lýsingarorðið bæði um manninn og hestinn þótt æviskeið þeirra séu mjög mislöng; í lýsingarorðinu er dulinn samanburður.

Þegar talað er um yngri menn og eldra fólk, án samanburðarliðar, er miðstigið notað á sama hátt og frumstig, þ.e.a.s. með duldum samanburði. Jón er yngri maður merkir þá 'Jón er innan við miðjan aldur', þ.e. yngri en meðalmaðurinn. Þetta sést líka á því að t.d. eldri maður er yfirleitt ekki eins gamall og gamall maður. Uppruni þessarar notkunar miðstigsins er væntanlega sá að menn vilja ekki taka mjög djúpt í árinni, heldur fara vægilega í sakirnar. Ég fæ ekki séð að þessi notkun miðstigsins sé óæskileg; hér er ekki um það að ræða að miðstigið sé notað í alveg sömu merkingu og frumstig, og það útrýmir frumstiginu ekki. Það er líka langt síðan farið var að tala um betri bændur, heldri menn, að fara í betri fötin o.fl., og þykir ekki athugavert.

Nokkuð annars eðlis er svo notkun miðstigs í auglýsingum, þar sem sagt er að þessi og þessi vara sé betri. Þar er miðstigið ekki notað í stað frumstigs, eins og í fyrra tilvikinu, heldur í stað efsta stigs. Þegar auglýst er Okkar vörur eru betri á fólk víst að skilja það eins og sagt væri okkar vörur eru bestar. En af því að það gæti reynst erfitt að sanna að svo sé er í staðinn notað miðstig, með óljósum samanburði við eitthvað annað. Þá er útilokað að hanka auglýsandann, því að hann getur alltaf skotið sér á bak við hina óákveðnu merkingu miðstigsins í þessu samhengi.

Er þessi notkun miðstigsins eitthvað verri eða óæskilegri en sú sem ég nefndi áður? Mér finnst mega segja það, því að þarna er um að ræða tilbúið mál. Það segir enginn í eðlilegu tali þessar vörur eru betri nema um samanburð sé að ræða, heldur er þessi notkun algerlega bundin við auglýsingar. Það kann að vera dansk‑þýskt að uppruna að tala um eldra fólk og yngri menn, en það er eðlilegt íslenskt mál.