Enskt heiti á verkefni ráðuneytis

Mennta- og barnamálaráðuneytið var að setja af stað verkefni undir heitinu „TEAM-Iceland“. Í kynningu á því segir: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Framtíðarsýn ráðuneytisins er sem sé á ensku. Verkefnið er eflaust gott en heitið er til skammar. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er ekki að finna neina skýringu á því að það er haft á ensku – hún virðist einhvern veginn vera sjálfgefin og ekki þarfnast útskýringar. Það er ótrúlegt að íslenskt ráðuneyti – og það Mennta- og barnamálaráðuneytið – skuli ekki geta fundið íslenskt heiti á verkefni sem það stendur fyrir. Enskan þrengir að íslensku á öllum sviðum og íslenskan þarf síst af öllu á því að halda að stjórnvöld hunsi hana á þennan hátt.

Ég minni á að mennta- og barnamálaráðherra á sæti í ráðherranefnd um íslenska tungu sem var sett á fót fyrir ári – og lítið hefur heyrst frá. Eftir höfðinu dansa limirnir og ef stjórnvöld hafa ekki meiri metnað fyrir hönd íslenskunnar en þetta heiti bendir til er baráttan vonlítil. Eins og ég hef oft sagt verða einstök ensk heiti, skilti og auglýsingar auðvitað ekki til að drepa íslenskuna. En þau hafa samt táknrænt gildi og eru vísbending um afstöðuna til tungumálsins, ekki síst þegar þau koma frá aðilum sem ættu að vera í forystu um að halda íslenskunni á lofti. Ég vonast til að ráðuneytið finni þessu verkefni íslenskt heiti hið snarasta – a.m.k. fyrir dag íslenskrar tungu eftir viku. Ég hef skrifað ráðuneytinu um þetta og bíð spenntur eftir skýringu. Hún þarf að vera góð.