Mörg húsnæði

Í Málvöndunarþættinum sá ég að gerð var athugasemd við setninguna „María segist vonast til þess að félagslegu húsnæði muni fjölga á komandi misserum“ í frétt Ríkisútvarpsins og sagt að hún stæðist ekki vegna þess að orðið húsnæði væri ekki til í fleirtölu samkvæmt Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er vissulega rétt en eins og oft hefur verið bent á er það ekki hlutverk BÍN að úrskurða hvaða orð eða orðmyndir séu til í málinu. Þótt tiltekin beygingarmynd komi ekki fyrir þar getur hún vel verið til, en hefur ekki verið talin nægilega algeng eða útbreidd til að taka hana með. Þannig er það um fleirtölu orðsins húsnæði – en reyndar er orðið alls ekki í fleirtölu í umræddri frétt því að þá stæði þar félagslegum húsnæðum. Athugasemdin var réttmæt en forsendan röng.

Það táknar samt ekki að orðið komi ekki fyrir í fleirtölu. Vegna þess að myndir nefnifalls og þolfalls eintölu og fleirtölu án greinis falla saman – eru allar húsnæði – er þó ekki hlaupið að því að leita að dæmum um fleirtöluna, og verður að byggja á sjaldgæfari beygingarmyndum þar sem eintala og fleirtala falla ekki saman. Myndin húsnæðin getur aðeins verið fleirtala – nefnifall eða þolfall með greini. Um þá mynd eru 135 dæmi á tímarit.is, það elsta í Þjóðólfi 1886: „Fyrir hina miklu eptirsókn eptir sjálfsmennsku ganga sumir einfeldningar að svo hörðum kostum hjá þeim, sem leigja þeim húsnæðin, að þeir ekki geta komizt af til lengdar.“ Stöku dæmi eru svo um þessa mynd alla 20. öldina, 1-5 á hverjum áratug, en fer fjölgandi á síðasta áratug aldarinnar og sérstaklega eftir aldamót.

Myndin húsnæðum getur ekki verið annað en þágufall fleirtölu. Um hana eru 127 dæmi á tímarit.is, það elsta í Reykjavík 1907: „Húsnæðisskrifstofan Grettisgötu 88, Talsími 129 hefir mikið úrval af húsnæðum til leigu frá 14. Maí n.k.“ Einnig eru 17 dæmi um myndina með greini, húsnæðunum. Um eignarfall fleirtölu húsnæða eru 80 dæmi, það elsta í Alþýðublaðinu 1926: „þá væri uppsagnarfrestur húsnæða ekki útrunninn á næsta þingi.“ Sex dæmi eru svo um húsnæðanna með greini. Þarna er hátt á fjórða hundrað dæma en þó vantar bæði nefnifall og þolfall án greinis sem myndi hækka töluna um nokkur hundruð. T.d. eru 23 dæmi um þessi húsnæði, 7 um öll húsnæði og 6 um mörg húsnæði. Tíðniþróun allra þessara mynda er svipuð og húsnæðin.

Risamálheildin staðfestir að notkun fleirtölunnar fer mjög í vöxt. Allar þær beygingarmyndir sem nefndar voru hér að framan koma þar fyrir, ekki síður í formlegu máli en óformlegu, og eru talsvert algengari en á tímarit.is. Ljóst er að notkun fleirtölunnar sprettur af þörf – ekkert eitt orð getur komið í stað hennar í dæmum eins og „Við erum að tala um svo svakalega mörg húsnæði þar sem komið hefur upp mygla“ í mbl.is 2017 eða „Reykjavíkurborg keypti húsnæðin sem um ræðir og fær afhent á árinu“ í Vísi 2019 eða „Hefur DV staðfestar heimildir fyrir því að fjöldi fólks býr í þessum tveim húsnæðum“ í DV 2020. Þarna væri hvorki hægt að nota íbúð hús í staðinn – merking beggja orða er of þröng. Ég sé ekkert að því að nota húsnæði í fleirtölu þegar þess er þörf.

Auðvitað má andmæla þessu og segja að húsnæði sé ekki teljanlegt og þess vegna sé ekki hægt að hafa það í fleirtölu – frekar en hveiti, sykur, mjólk o.s.frv. Það er vissulega rétt að þannig var orðið notað áður fyrr og er oftast enn – þá hefur það almenna merkingu en ekki sértæka. En fleirtalan af húsnæði er gömul – hana er t.d. að finna í kvæðinu „Patrekur frændi“ eftir Stephan G. Stephansson: „En hringinn í kring vóru húsnæði stór / og hálendar ekrur og frjóar.“ Ýmis dæmi önnur eru um að orð þar sem merkingin hefur víkkað á sama hátt þannig að nú er hægt að nota þau í afmarkaðri vísun – orð eins og smit, þjónusta, keppni og ýmis fleiri. Vissulega þarf að venjast þessu og sumum hugnast það ekki, en í mörgum tilvikum er komin löng hefð á slíka merkingarbreytingu.