Smit

Nafnorðið smit hefur heyrst æði oft undanfarna mánuði. Í orðabókum er merking þess sögð vera ‚það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars‘. Samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur enga fleirtölubeygingu. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.

En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að smit sé notað í fleirtölu – sagt að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þetta tengist greinilega merkingarbreytingu orðsins. Í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota orðið í fleirtölu.

Þegar fleirtala kemur upp hjá orðum sem áður hafa eingöngu verið notuð í eintölu heyrist venjulega hljóð úr horni hjá málvöndunarmönnum, en ég hef ekki séð neinar athugasemdir við þessa breyttu hegðan orðsins smit. Kannski hefur enginn áttað sig á því að orðið var ekki notað í fleirtölu til skamms tíma – en kannski er þetta merki um aukið umburðarlyndi gagnvart eðlilegri málþróun. Það er óskandi.