„Drög að stefnu“ frá 2020 eru enn bara drög

Í maí 2020 kynnti Mennta- og menningarmálaráðuneytið með pompi og prakt ítarlega skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins: „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“. Þar er m.a. að finna tillögur um íslensku sem annað mál: „Börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli. Sérstaklega þarf að styðja börn, sem eru fædd hér á landi eða koma ung til landsins, að þau fái strax í leikskóla málörvun í íslensku og fylgst sé með að þau taki reglulegum framförum.“

Síðan er liðið hálft fjórða ár og umrædd „drög að stefnu“ eru ekki komin lengra – sem sé ekki enn orðin að stefnu. Ekki nóg með það – lítið ber á því að unnið hafi verið eftir drögunum og einn skýrsluhöfunda segist ekki vita „hvort nokkuð af þeim tillögum varðandi íslensku séu komnar í framkvæmd“ þrátt fyrir að aðgerðum á sviði íslensku sem annars máls sé í drögunum settur tímaramminn 2020-2023. Það er sem sé bara hálfur annar mánuður eftir af verktímanum. Ég efast ekki um að leikskólar og grunnskólar geri sitt besta til að koma til móts við börn með annað móðurmál en íslensku en aðstæður þeirra til þess eru óviðunandi. Því miður verður ekki séð að stjórnvöld átti sig á því hversu alvarlegt ástandið er á þessu sviði. Því verður að breyta.