Veðurstyggt fólk – og dagstyggt

Um daginn sagði hópverji í færslu hér: „Ég kalla þá vini mína „veðurstygga“ sem skirrast við að fara út með mér að hlaupa ef þeir heyra í vindi – og finnst það eðlilegasta mál.“ En hann bætti því við að þetta orð fyndist hvergi í bókum. Ég hef ekki heldur fundið það en tek undir að veðurstyggur hljómar eðlilega og er gagnsætt. Í framhaldi af þessu fór ég að skoða aðeins aðrar samsetningar með lýsingarorðinu -styggur. Það orð eitt og sér er skýrt 'sem fælist auðveldlega' (um dýr) í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'sem ógjarnan lætur handsama sig' í Íslenskri orðabók – þá merkingu þekki ég vel síðan ég var sveitamaður. Einnig getur orðið merkt 'önugur í skapi, móðgaður, skapstyggur'. En ýmsar samsetningar sem hafa -styggur sem seinni lið eru til, flestar þó sjaldgæfar.

Sumar þessara samsetninga eru einungis notaðar í (fornu) skáldamáli en þær sem eru notaðar í nútímamáli eru helst skapstyggur 'sem bregst oft við með reiði eða geðvonsku' og svefnstyggur 'sem vaknar fljótt við minnstu ókyrrð eða hávaða'. Í flestum samsetninganna hefur -styggur merkinguna ‚forðast‘ en merkingartengsl liðanna eru mismunandi. Þannig merkir hlaupstyggur (sem nú er horfið úr málinu) 'fælinn og styggur, sem erfitt er að ná' (um hesta) samkvæmt Íslenskri orðabók en ef við þekkjum orðið ekki gætum við eins ímyndað okkur að það merki 'sem forðast að hlaupa, latur'. Annað orð sem notað er í svipuðu hlutverki í mörgum samsetningum er -fælinn ákvarðanafælinn, áhættufælinn, vatnsfælinn o.s.frv. Reyndar er til orðið veðurfælni.

Mannsnafnið Dagstyggur kemur fyrir í Sturlungu og einnig á 17. öld. Í textanum „Ó þú“ eftir Magnús Eiríksson segir: „Dagstyggur aldrei því gleymir / að hafa þig elskað og kysst.“ Þarna er óljóst hvort þetta er hugsað sem mannsnafn eða lýsingarorð – mannlýsing. Í Morgunblaðinu 2000 er ungur maður spurður: „Hver er þinn helsti veikleiki?“ og hann svarar: „Óþolinmóður, dagstyggur (þykir gott að sofa á morgnana).“ Svigagreinin bendir til þess að ekki sé gert ráð fyrir að þessi merking sé alkunn og þetta er eina ótvíræða dæmið sem ég finn um hana en dagstyggur í þessari merkingu er lipurt og gagnsætt orð. Það er um að gera að taka orðin dagstyggur og veðurstyggur í notkun í þeim merkingum sem hér hefur verið lýst og nota -styggur í fleiri orð í stað þess að nota alltaf -fælinn.