Af hverju notum við ensk orð?

Í gær gagnrýndi ég hér auglýsingaherferð stjórnvalda sem rekin er undir formerkjum „vitundarvakningar“ um ensk áhrif á íslensku. Það þýðir ekki að ég sé sáttur við fjölda enskra orða í íslensku. Því fer fjarri, enda tók ég fram að ég væri ekki að mæla þeim bót og þeim mætti fækka. En ég held að auglýsingar af þessu tagi séu ekki rétta aðferðin til að fækka þeim. Þær gera ekki annað en gefa þeim sem það vilja færi á að skammast yfir, hneykslast á og hæðast að málfari annarra – einkum ungu kynslóðarinnar. En að horfa eingöngu á ensku orðin í stað þess að einbeita sér að því að skoða hvers vegna fólk notar þau – og bregðast við því – er svipað því að láta nægja að setja plástur á sár þar sem bullandi gröftur og sýking er undir. Það fer ekki vel.

Ástæðurnar fyrir því að fólk notar ensk orð í íslensku samhengi eru eflaust ýmsar. Stundum er það vegna þess að íslensk orð eru ekki til – orð um nýjungar í tækni, nýjungar í vísindum, nýjungar í hugmyndum o.s.frv. Við því er hægt að bregðast að einhverju marki með öflugri nýyrðasmíð eins og lengi hefur tíðkast þótt líklega hafi dregið úr skipulegu nýyrðastarfi á síðari árum enda nær eingöngu um sjálfboðavinnu að ræða. En önnur leið er að taka upp erlend (yfirleitt ensk) orð og laga þau að íslensku í hljóðafari og beygingum. Þetta á sér líka langa hefð þótt oft hafi tekið tíma fyrir slík orð að öðlast viðurkenningu. Mikilvægt er að stjórnvöld ýti undir bæði nýyrðasmíð og aðlögun erlendra orða með sérstökum aðgerðum og styrkjum.

En önnur ástæða fyrir notkun enskra orða í íslensku er sú að fólk þekkir ekki samsvarandi íslensk orð þótt þau séu til – eða er ekki vant þeim og grípur því frekar til ensku. Það er auðvelt – og algengt – að hneykslast á slíku og tala um fáfræði, vankunnáttu og jafnvel heimsku, en oftast stafar þetta væntanlega af því að íslensku orðin eru ekki algeng í málumhverfi fólks. Það er staðreynd að enska er mjög áberandi í málumhverfi mjög margra um þessar mundir, bæði í raunheimum og ekki síður í hinum stafræna heimi sem við mörg lifum og hrærumst í. Það vantar einfaldlega miklu meiri íslensku í málumhverfi margra og það er hið undirliggjandi mein sem við þurfum að bregðast við – í stað þess að einblína á birtingarmyndir þess, ensku orðin.

Svo getur auðvitað verið að fólk þekki íslensku orðin en noti fremur ensk orð vegna þess að íslenskan þyki gamaldags og hallærisleg en enskan nútímalegri og smartari. Það hugarfar er t.d. áberandi þegar verið er að gefa veitingastöðum, verslunum og öðrum fyrirtækjum ensk heiti, eða þegar verkefni ráðuneytis er kallað „TEAM-Iceland“. En einnig er trúlegt að ástæða fyrir enskunotkun sé stundum sú að fólk kann einfaldlega ekki að tala um tiltekin efni með íslenskum orðum af því að það hefur ekki vanist því. Það er t.d. ekkert óhugsandi að íslenskir unglingar hafi oftar heyrt fólk tala um tilfinningar sínar í amerískum bíómyndum en í sínu eigin íslenska málumhverfi og þá er ekki óeðlilegt að þau grípi til enskunnar þegar þau ræða sín hjartans mál.

Það liggur alveg fyrir hvað þarf að gera til að bregðast við þessu öllu: Það þarf að stórauka íslensku í málumhverfi okkar, einkum barna og ungs fólks, og skapa henni jákvæða ímynd í huga fólks. Það er vissulega einfaldara að segja þetta en framkvæma og það er ljóst að þarna þurfum við öll að leggjast á árar – heimilin, skólakerfið, fyrirtæki og stjórnvöld. Það þarf að tala við börnin og lesa fyrir þau. Það þarf að sjá til þess að börn af erlendum uppruna fái miklu meiri stuðning í íslensku. Það þarf að stórauka framleiðslu hvers kyns fræðslu- og afþreyingarefnis á íslensku. Og það þarf að hætta tuði um „villur“ og „slettur“ í máli fólks en snúa sér þess í stað að því að sýna og nýta alla þá stórkostlegu möguleika sem búa í íslenskunni.