Hjúkrunarmaður, hjúkrunarkona – og sjúkrunarkona

Fyrir nokkrum árum varð talsvert fjaðrafok út af því að orðið hjúkrunarkona var notað í barnabók. Mörgum fannst það óeðlilegt og bentu á að þetta væri gamaldags og úrelt orð – þegar hjúkrunarnám færðist á háskólastig hefði starfsheitið hjúkrunarfræðingur verið tekið upp í staðinn og teikningar í bókinni ásamt notkun orðsins hjúkrunarkona „ýti undir skaðlegar staðalímyndir um stéttina“. Í þessu sambandi má nefna að áður var eingöngu gert ráð fyrir að konur sinntu þessu starfi og starfsheitið hjúkrunarkona lögverndað með hjúkrunarkvennalögum frá 1933, en í hjúkrunarlögum frá 1974 segir: „Rétt til að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarkonu eða hjúkrunarmann hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi ráðherra.“

Bæði hjúkrunarkona og hjúkrunarmaður voru sem sé lögvernduð starfsheiti um sömu starfsstéttina. Þrátt fyrir það var ekki væri gert ráð fyrir að verkefnin væru ólík þannig að það var eingöngu kyn þeirra sem gegndu störfunum sem réði því hvort starfsheitið var notað. Í greinargerð með frumvarpinu var sagt að tillögur hefðu komið fram um orðin hjúkrir, hjúkri, hjúkrari – og hjúkrunarfræðingur (allt karlkynsorð). En sama ár og lögin voru sett samþykkti Hjúkrunarfélag Íslands „að taka upp starfsheitið hjúkrunarfræðingur“ og „fá það löggilt“. Lögunum var því breytt strax árið eftir og „hjúkrunarfræðing“ sett í stað „hjúkrunarkonu eða hjúkrunarmann“ en tekið fram að þeim sem óskuðu væri heimilt að nota eldri starfsheiti áfram.

Þegar umrædd barnabók var til umræðu á sínum tíma rifjaði ég upp að þegar ég lá á barnadeild Landspítalans haustið 1965 kölluðu strákarnir í rúmunum í kringum mig „sjúkrunarkona!“ þegar þurfti að sinna þeim eitthvað. Þetta hafði ég aldrei heyrt áður og fannst það kjánalegt, en nú þegar ég fer að skoða málið nánar kemur í ljós að fleiri en stofufélagar mínir tengdu orðið við sjúk- fremur en hjúk-. Það má finna slæðing af dæmum um sjúkrunarkona á prenti, það elsta í vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1923: „“Eg held hún hafi ekki ort þetta sjálf”, sagði yfirsjúkrunarkonan og reyndi að brosa ekki.“ Elsta dæmi í íslensku blaði er í Morgunblaðinu 1944: „Virðist mjer starfið hafa gengið vel, enda ágætum sjúkrunarkonum á að skipa.“

Samtals er vel á annan tug dæma um sjúkrunarkona á tímarit.is og um tugur í Risamálheildinni. Sum af síðarnefndu dæmunum eru úr máli barna en augljóst er af dæmum á tímarit.is að þessi skilningur á orðinu hefur ekki verið bundinn við börn. Þótt orðið hjúkrunarkona sé í sjálfu sér gagnsætt orð – fyrir þau sem þekkja sögnina hjúkra á annað borð – er misskilningurinn sjúkrunarkona samt ekkert út í hött. Orðhlutinn sjúk- er algengari og í fleiri orðum en hjúk- –talað er um sjúklinga, sjúkdóma, sjúkrahús, sjúkraliði, vera sjúkur o.fl. Framburðarmunur hj- og sj- í upphafi orðs er oft sáralítill og þess vegna er ekkert undarlegt að hjúkrunarkona skuli stundum vera skilið sem sjúkrunarkona. Það er dæmigerð og bráðskemmtileg alþýðuskýring.