Þjálfarinn hvíldi þær – þær hvíldu

Á vef Ríkisútvarpsins rakst ég áðan á fyrirsögnina „Sunna og Hildigunnur hvíla gegn Angóla“. Þetta orðalag er alþekkt í íþróttamáli en merking og notkun sagnarinnar hvíla víkur þarna nokkuð frá því sem venja er í almennu máli. Sögnin hefur reyndar tvær meginmerkingar – annars vegar merkir hún 'liggja', annaðhvort í rúmi eða í gröf, og tekur þá venjulega með sér forsetningarlið eða atvikslið – þau hvíldu saman, þau hvíla í Hólavallagarði. En sú merking sem okkur varðar hér er 'láta þreytu líða úr sér/e-m' þar sem sögnin tekur með sér andlag í þolfalli, hvíla sig, hvíla hestinn. Í dæminu sem vitnað var til í upphafi er sögnin hins vegar áhrifslaus – tekur ekki með sér neitt andlag, og ekki heldur forsetningarlið eða atvikslið.

Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun hvíla er í Alþýðublaðinu 1970: „Jón Hjaltalín og Sigurður Einarsson, sem báðir hvíldu í leiknum á móti Japönum voru báðir sendir til að njósna í leik Rússa og Frakka.“ Annars fer þetta ekki að sjást á prenti fyrr en undir 1980: „Fjórir leikmenn hvíla gegn Ísrael“ segir í Dagblaðinu 1979. Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Þeir sem hvíldu í leiknum voru Þorbjörn Guðmundsson og Þorbjörn Jensson, Erlendur Hermannsson og Jens Einarsson“ og í sama blaði sama ár segir: „Kom það nokkuð á óvart að þeir skyldu látnir hvíla í leiknum.“ Á níunda áratugnum verður þessi notkun svo algeng eins og hún er enn – hundruð dæma frá þessari öld eru um hana í Risamálheildinni.

Þessi notkun er ekki nefnd í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók segir að hún sé óformleg og merki 'bíða á varamannabekk' (í knattleikjum) eða 'sitja hjá eina umferð' (um lið á íþróttamóti). En 'bíða á varamannabekk' er ófullnægjandi skýring þótt hún geti stundum átt við, eins og í „Ólafur Stefánsson fær einnig að hvíla síðustu þrettán mínútur leiksins“ í Vísi 2008 og „Ingimundur hvíldi í seinni hálfleik en segist vera algerlega heill heilsu“ í Vísi 2012. Langoftast vísar hvíla nefnilega til þeirra sem taka engan þátt í leiknum, eru ekki á leikskýrslu. Ef hvíla er notuð um lið vísar hún oftast til þess að liðið fái hlé frá keppni frekar en það sitji hjá – „Íslenska liðið hvílir í dag en mætir Dönum á morgun“ segir í Þjóðviljanum 1985.

Þarna er bæði verið að hliðra til merkingu og setningafræðilegum eiginleikum sagnarinnar. Tilgangurinn með því að hvíla leikmenn er ekki fyrst og fremst að 'láta þreytu líða úr' þeim, heldur að gefa þeim hlé og hleypa öðrum að. En sú merking getur líka komið fram þótt sögnin taki andlag, eins og í „Vegna meiðsla hafi hins vegar verið ákveðið að hvíla hann gegn Noregi“ í Fréttablaðinu 2018. Við höfum því pör eins og þjálfarinn hvíldi leikmanninn leikmaðurinn hvíldi. Sögnin hvíla hagar sér þarna eins og t.d. stækka og minnka, í dæmum eins og hún stækkaði íbúðina íbúðin stækkaði, hann minnkaði drykkjuna drykkjan minnkaði. Þetta er skemmtileg nýjung í málinu sem engin ástæða er til annars en viðurkenna í formlegu máli.