Bíllinn velti

Eins og ég nefndi í gær eru til tvær sagnir sem eru merkingarlega náskyldar og hafa samhljóma nafnhátt, velta. Önnur er sterk, hefur þátíðina valt og merkir 'færast úr stað með snúningi, rúlla'. Hún er áhrifslaus, þ.e. á eftir henni fer ekkert andlag – við segjum bíllinn valt en ekki *ég valt bílnum. Hin er veik, hefur þátíðina velti og merkir 'koma snúningi á (e-ð), láta (e-ð) rúlla'. Hún er áhrifssögn, tekur með sér andlag – ég velti bílnum. En stundum verður áhrifssögnin áhrifslaus og andlag hennar að frumlagi. Í Vísi 2007 segir: „Bíll velti á Hólsfjallavegi á fimmta tímanum í gær.“ Í DV 2009 segir: „Bíll þeirra velti á veginum en þar var mikil hálka.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Betur fór en á horfðist þegar bíll velti við Kúagerði á Vatnsleysuströnd.“

Eiður Guðnason vakti athygli á síðastnefnda dæminu og sagði: „Þetta er undarlega þrálát meinloka hjá ýmsum fréttaskrifurum. Hverju velti bíllinn? Bíllinn valt  við Kúagerði. Hann velti hvorki einu né neinu.“ En þetta á sér ýmis fordæmi. Það þykir t.d. ekkert athugavert við að segja bæði hann minnkaði drykkjuna og drykkjan minnkaði, hún stækkaði íbúðina og íbúðin stækkaði ­– en aðeins hann opnaði skrifstofuna og hún lokaði búðinni er viðurkennt, ekki skrifstofan opnaði og búðin lokaði, sem er þó alveg hliðstætt. Reyndar er sá munur á loka og hinum sögnunum að sem áhrifssögn stjórnar hún þágufalli sem verður að nefnifallsfrumlagi (þótt búðinni lokaði sé reyndar líka til) – og sama máli gegnir um velta bílnum bíllinn velti.

Þessi breyting á notkun velta er greinilega ekki alveg ný en virðist ekki vera algeng, aðeins milli 10 og 20 örugg dæmi í Risamálheildinni en slæðingur að auki á netinu. En vegna þess að myndir áhrifssagnarinnar og þeirrar áhrifslausu falla saman í viðtengingarhætti nútíðar er oft útilokað að skera úr um það hvora sögnina er verið að nota. Þetta á t.d. við um setningar eins og „Víða eru brattir vegfláar og því hætta á að bílar velti“ á mbl.is 2020. Þarna er vissulega langeðlilegast að líta svo á að um sé að ræða sögnina velta – valt, en velta – velti kemur þó líka til greina, þ.e. merkingin 'að bílstjórar velti bílum'. Í talningum geri ég þó alltaf ráð fyrir fyrrnefndu sögninni í slíkum tilvikum og því gætu dæmin um breytinguna verið vantalin.

Ég get vel sagt bæði bíllinn fór svo hratt að hann valt í beygjunni og bíllinn fór svo hratt að hann velti í beygjunni en ég býst við að seinni setningin hugnist ekki öllum. Mér finnst samt einhvern veginn að þessar setningar merki ekki nákvæmlega það sama – mér finnst einhvern veginn meiri hreyfing í velti, meira eins og veltan sé liður í ferli, en sjálfstæður atburður ef valt er notað. Það passar við þessa tilfinningu að þessi notkun velti virðist vera bundin við bíla – mér finnst dæmi á við *steinninn velti eða eitthvað slíkt alveg ótækt og hef aldrei séð það. En við þetta bætist að andlaginu bíl er oft sleppt með velta þegar það er augljóst – „táningur frá Harrisburg, höfuðborg Pennsylvaníu var langt kominn með að læra á bíl þegar hann velti á leið sinni í verklega prófið“ segir í Morgunblaðinu 2008. Þarna merkir sögnin eiginlega 'velta bíl'.