Verslunin opnar

Meðferð sagnanna opna og loka er algengt aðfinnsluefni í málvöndunarumræðu. Oft er amast við því að talað sé um að opna og loka hurðum í stað dyrum, en einnig hafa verið gerðar athugasemdir við notkun sagnanna í setningum eins og Verslunin opnar klukkan níu, Verslunin lokar, o.s.frv. Sagt er að þessi notkun sé ekki rökrétt vegna þess að þarna séu dauðir hlutir gerðir að gerendum – verslunin hvorki opni nokkuð né loki því, heldur opni einhver verslunina og loki henni – hún sé opnuð og henni lokað.

Dugir það til að fordæma þetta orðalag? Þarna má segja að verslunin sé persónugerð, en það er vitaskuld algengt í ljóðum og þykir ekki athugavert. Vissulega er slík persónugerving minna notuð í óbundnu máli en er þó algeng þar líka. Það er t.d. mjög algengt (og stundum raunar hnýtt í það) að tala um að bílar aki þótt vitanlega sé einhver sem ekur þeim. Eins er mjög algengt að tala um að Ísland (eða eitthvert annað land) geri þetta eða hitt þegar það eru auðvitað landsmenn sem gera þetta. Er eitthvað verra að persónugera verslanir?

En reyndar þarf ekki að líta svo á að um persónugervingu sé að ræða. Það eru nefnilega fleiri sagnir sem haga sér á sama hátt án þess að nokkur geri athugasemd við það. Við segjum Hún stækkaði íbúðina, Hann minnkaði drykkjuna, Þau fjölguðu mannkyninu – en einnig Íbúðin stækkaði, Drykkjan minnkaði, Börnunum fjölgaði. Þarna er andlag gert að frumlagi án þess að það verði við það að geranda – og án þess að nokkuð sé við þetta að athuga. Er einhver munur á t.d. Hún stækkaði íbúðina – Íbúðin stækkaði og svo Hún opnaði búðina – Búðin opnaði?

Ég get ekki séð að neinn munur sé á þessu frá röklegu sjónarmiði – þessi notkun opna og loka á sér skýrar hliðstæður í málinu. Hins vegar væri vissulega hægt að hafa það á móti henni að um nýjung sé að ræða í notkun þessara sagna – þær hafi ekki hagað sér svona áður fyrr og ástæðulaust sé að breyta því, hvað sem fyrirmyndum líður. Það má auðvitað deila um hvað sé nýjung – elsta dæmi sem ég hef fundið um fordæmingu þessarar notkunar er frá 1938, þannig að gera má ráð fyrir að hún hafi verið orðin nokkuð útbreidd þá og sé a.m.k. 80-100 ára gömul.

En ýmislegt er áhugavert í þessu sambandi. Sögnin opna stýrir þolfalli, en þegar andlagið er gert að frumlagi fær það nefnifall – Búðin opnar en ekki *Búðina opnar. Þetta er það sem við er að búast – þolfallsandlög fá nefnifall þegar þau eru færð í frumlagssæti, bæði í þolmynd (Búðin verður opnuð) og með sögnum eins og stækka og minnka (Íbúðin stækkaði). En þágufallsandlag helst hins vegar þótt það sé sett í frumlagssæti – Bílum var fjölgað, Bílum fjölgaði. Hvernig er farið með loka sem tekur þágufallsandlag?

Mér sýnist að þágufallið verði oftast að nefnifalli þegar það er fært í frumlagssæti loka – sagt er Verslunin lokar frekar en Versluninni lokar. Þetta er óvanalegt en þó ekki einsdæmi. Þótt þágufallið haldi sér nú með fjölga og fækka höfðu þessar sagnir nefnifall í frumlagssæti til skamms tíma, á 19. öld og fram á þá 20. Í Fjölni 1844 segir t.d. „Við þetta fjölguðu hófsemdarvinir að vísu talsvert“ og „vínsölumenn og drykkjumenn fækkuðu dag frá degi“. Í andlagssæti þessara sagna var þó þágufall á þessum tíma rétt eins og nú.

Það er þó ekki einhlítt að þágufallið verði að nefnifalli með loka. Á tímarit.is eru t.d. bæði dæmi um kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar; hins vegar eingöngu dæmi um verslunin lokar, ekki versluninni lokar. En það er athyglisvert að í mörgum dæmum um verslunin lokar er um að ræða að verið er að leggja verslun af – loka henni endanlega. Það eru því vísbendingar um að málnotendur fari með sögnina á mismunandi hátt eftir því hvort um er að ræða tímabundna eða varanlega lokun.

Þetta er dæmi um hvað maður getur rekist á forvitnilega hluti með því að skoða hvað liggur að baki málbreytingum í stað þess að afgreiða þær umsvifalaust sem „málvillur“ og láta þar við sitja.