Ég er að labba labba labba
Í fyrradag var hér spurt hvenær það hefði verið „þegar Íslendingar hættu að ganga og byrjuðu að labba“. Ég eyddi raunar þeirri færslu vegna þess að hún er ekki í anda hópsins (gefur sér rangar forsendur og er til þess fallin að kalla fram vandlætingu). En vegna þess að athugasemdir hafa iðulega verið gerðar við notkun sagnarinnar labba, bæði hér og þó einkum í Málvöndunarþættinum, fannst mér ástæða til að líta betur á hana. Athugasemdirnar eru einkum af þrennum toga: Í fyrsta lagi að sögnin sé ofnotuð á kostnað ganga og annarra sagna svipaðrar merkingar, í öðru lagi að sögnin sé oft notuð í formlegu máli þar sem hún eigi ekki við, og í þriðja lagi að labba eigi eingöngu að nota um dýr en ekki um fólk. Allt er þetta umdeilanlegt.
Í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'rölta, ganga', í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð 'ganga' og 'ganga hægt, rölta', og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'ganga rólega'. Hvergi er minnst á að hún eigi frekar við um dýr en fólk og í öllum elstu dæmunum er vísað til fólks en ekki til dýra. Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur sem stafar sennilega af því að labba er oft talin frekar óformleg sögn – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin ekki bara 'ganga hægt' heldur einnig 'fara fótgangandi' sem merkt er „(pop.), þ.e. 'alþýðumál' eða 'talmál'“. Fólk virðist tengja sögnina við önnur óformleg orð sem oft eru sögð eiga einkum við um dýr, eins og nafnorðin löpp og haus og sögnin éta.
Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um sögnina er í Íslenskum fornkvæðum frá seinni hluta 17. aldar. Hún kemur fyrir í kvæðinu „Flösku-kveðjur“ eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld: „Makinn labbar lotinn / landa sína hvetr.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1849: „það væri miklu skynsamlegra fyrir oss bændur, að drepa hesta vora heima, heldur en að fara með þá suður í Reykjavík […] og eiga svo að labba austur yfir fjall í þokkabót.“ Einnig kemur sögnin fyrir í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen frá 1850: „Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eptir fjenu fram fjár götur.“ Þrjú dæmi eru um hana í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum frá 1862 og á seinustu áratugum 19. aldar verður hún algeng og er enn að sækja í sig veðrið.
Í dæmum frá 19. öld virðist merkingin yfirleitt vera 'ganga hægt, rölta' en ekki vera sérstaklega óformleg. E.t.v. hefur hægur gangur þó þótt eitthvað kæruleysislegur og það leitt til þess að sögnin fékk á sig óformlegan blæ, sbr. „pop.“ í Íslensk-danskri orðabók. En önnur ástæða fyrir þeirri tilfinningu margra að sögnin sé óformleg gæti verið hljóðafarið. Orð með löngu bb eru mörg hver gælunöfn, gæluorð eða annars konar styttingar og því í eðli sínu óformleg – Sibba, Tobba, Kobbi, Stebbi; pabbi, nebbi, rebbi; abbó, vibbi; o.s.frv. Önnur hafa á sér einhvers konar neikvæðan eða kæruleysislegan blæ – gubba, rubba, gabba, skrúbba, subba, gribba, lubbi, nabbi o.s.frv. Líklegt er að þessi orð og önnur slík hafi áhrif á tilfinningu margra fyrir labba.
Kringum 1890 fór sögnin að koma fram í afturbeygðri notkun – labba sig. Ekki er alltaf að sjá skýran merkingarmun á labba og labba sig, en því síðarnefnda virðist alltaf fylgja einhver staðar- eða stefnuákvörðun – labba sig burt, labba sig til hennar, labba sig norður, labba sig ofan í bæinn o.s.frv. Ekki er hægt að segja t.d. *ég fór út að labba mig eða *ég labbaði mig lengi. Um 1930 fara svo að sjást dæmi um þágufall í stað þolfallsins – labba sér. Enginn merkingarmunur virðist vera á þolfalli og þágufalli í þessu sambandi. Afturbeygð notkun sambandsins virðist hafa náð hámarki kringum 1970 og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Þolfallið hefur alla tíð verið mun algengara en þágufallið hefur þó mjög sótt á í seinni tíð.
Því er stundum haldið fram að labba sé að teygja sig inn á svið annarra sagna, einkum ganga, og vel má vera að labba sé nú notuð í samböndum þar sem sumum fyndist eðlilegra að nota ganga. Ég hef t.d. séð vísað til þess að nú sé meira að segja talað um að labba á fjöll. Það er alveg rétt – en það merkir ekki alveg sama og ganga á fjöll, heldur er frekar notað um tómstundagaman: „margir í þessari stétt gera það sér til gamans að setja saman lausavísur, líta í bók, labba á fjöll og renna fyrir fisk“ segir t.d. í DV 1987. Tæpast er talað um að labba á Everest. En dæmum um labba á tímarit.is hefur vissulega fjölgað verulega á þessari öld og það er auðvitað smekksatriði hvort hún sé ofnotuð. Notkun hennar truflar mig a.m.k. ekki.