Aukum íslenskuna í málumhverfinu!

Það sem Freyja Birgisdóttir segir í frétt Morgunblaðsins í dag er hárrétt og samræmist algerlega því sem ég hef oft skrifað um. „Lestr­aráhugi er ekk­ert sér­stak­lega mik­ill á meðal ungs fólks í dag. Þetta er bara sam­keppni um tíma og þau velja lang­flest að gera eitt­hvað annað í frí­tíma sín­um en að lesa [...] Orðaforði ís­lenskra nem­enda er að minnka ein­fald­lega af því að þau lesa minna og það er svo mikið af ensku í um­hverfi þeirra. Þannig að ef við ber­um okk­ur sam­an við önn­ur lönd, þar sem finna má stærri mál­sam­fé­lög, þá er þeirra móður­mál miklu meira í þeirra umhverfi en hjá okk­ar börn­um, þetta er bara staðreynd.“ Vegna smæðar málsamfélagsins hefur utanaðkomandi þrýstingur, aðallega frá ensku, meiri áhrif á íslensku en tungumál stærri málsamfélaga.

En það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er samt ekki of mikil enska í málumhverfi barna og unglinga, heldur of lítil íslenska. Auðvitað má segja að það komi út á eitt hvernig þetta er sett fram – því meiri sem enskan er, þeim mun minna rúm er fyrir íslenskuna. En þetta skiptir máli fyrir það hvernig brugðist er við vandanum. Við eigum ekki að hugsa um hvernig við getum dregið úr enskunni í málumhverfinu, heldur hvernig við getum aukið íslenskuna – og þá minnka áhrif enskunnar sjálfkrafa. Meginatriðið er að átta sig á því að þetta er samkeppni um tíma eins og Freyja segir. Við þurfum að komast að því í hvað börn og unglingar verja tíma sínum, og finna svo uppbyggjandi leiðir til að fylla þann tíma af íslensku. Strax.