Hvers konar frávik er vegna ofbeldi?
Ég rakst á fyrirsögnina „Óttast að missa barnið frá sér vegna ofbeldi fyrrverandi“ á mbl.is í dag. Nú stjórnar forsetningin vegna eignarfalli og ofbeldi er hvorugkynsorð sem ætti að fá endinguna -s í eignarfalli eins og önnur nafnorð í því kyni (önnur en þau sem enda á -a) – þarna ætti sem sé að standa vegna ofbeldis ef málhefð væri fylgt. Auðvitað gæti þetta verið einhvers konar frágangs- eða fljótfærnisvilla og þá er svo sem ekki meira um það að segja, en einnig gæti þetta verið vitnisburður um byrjandi málbreytingu. Undanfarin rúm 40 ár hefur því oft verið haldið fram að eignarfall stæði höllum fæti í málinu og stundum verið talað um „eignarfallsflótta“ í því sambandi, allt frá því að Helgi Skúli Kjartansson skrifaði grein með því heiti 1979.
Slík breyting gæti verið af mismunandi toga. Einn möguleiki er sá að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast – hún taki ekki lengur alltaf með sér eignarfall heldur geti stundum tekið þolfall eða þágufall. Í sumar skrifaði ég um dæmi eins og vegna hlýnun sem eru nokkuð algeng og taldi að þau væru „frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast“ en bætti við: „Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn.“ Það væri óheppilegt ef fallstjórn vegna væri að breytast – fyrir utan til er hún aðalforsetningin sem stjórnar eignarfalli og breytt fallstjórn hennar myndi því veikja stöðu þess.
Annar möguleiki er að beyging orðsins ofbeldi sé að breytast – það fái ekki lengur endilega -s-endingu í eignarfalli heldur geti verið endingarlaust. Það væri eiginlega mun alvarlegra en breytt fallstjórn vegna – sterk hvorugkynsorð eru mjög stór flokkur orða og breyting á beygingu þeirra, sem kæmi þannig út að þau hvorugkynsorð sem enda á -i hættu að beygjast vegna þess að öll föll þeirra í eintölu yrðu þá eins, væri því veruleg breyting á kerfinu og í raun veiking þess. En þriðji möguleikinn er sá að þetta snúist hvorki um fallstjórn né beygingarmynd, heldur um kyn – orðið ofbeldi sé sem sagt notað þarna í kvenkyni í stað hvorugkyns. Kvenkynsorð sem enda á -i geta nefnilega verið endingarlaus í eignarfalli, svo sem gleði, reiði, athygli, illgirni o.m.fl.
Það eru dæmi um að orð af þessari gerð fari milli kynja. Orðið athygli sem nú er alltaf haft í kvenkyni var t.d. ekki síður hvorugkynsorð áður fyrr og -s- í lýsingarorðinu athyglisverður er því alveg eðlilegt. Þótt ofbeldi sé nær alltaf hvorugkynsorð má finna einstöku dæmi á netinu um að það sé haft í kvenkyni. Á Bland.is 2005 segir: „ég varð fyrir mikilli líkamlegri og andlegri ofbeldi af barnsföður mínum.“ Á Blog.is 2009 segir: „Á mótmælafundinum í dag var engin ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Mikil ofbeldi hefur átt sér stað undanfarna daga í borginni Ghazipur í Uttar Pradesh héraðinu í Indlandi.“ Í Vísi 2021 segir: „Það er alveg jafn mikil ofbeldi.“ Dæmi af þessu tagi eru þó vissulega mjög fá og ekki hægt að draga miklar ályktanir af þeim.
Það eru sem sé fjórar hugsanlegar skýringar á því fráviki frá málhefð sem kemur fram í fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi. Fyrir utan að vera frágangsvilla getur þetta sýnt breytta fallstjórn forsetningarinnar vegna, breytta fallbeygingu nafnorðsins ofbeldi, eða breytt kyn orðsins. Af hinum þremur hugsanlegu málfræðilegum skýringum er sú síðastnefnda „æskilegust“, ef svo má segja, frá sjónarhorni tungumálsins. Hinar tvær eru nefnilega röskun á kerfinu en breyting á kyni einstaks orðs, sem formsins vegna gæti verið af tveimur mismunadi kynjum, hefur engin víðtækari áhrif. Í stað þess að afgreiða frávik frá málhefð einfaldlega sem „villur“ er miklu gagnlegra að velta fyrir sér í hverju þau felast – og hvaða áhrif þau gætu haft.