Gæti ChatGPT verið íslenskt orð?
Eins og áður hefur verið nefnt hér stendur nú yfir val á orði ársins 2023 á Rás tvö og Árnastofnun hefur einnig valið orð ársins undanfarin ár út frá Risamálheildinni. Sambærilegt val fer fram víða erlendis en á mismunandi forsendum eftir löndum – sums staðar kjósa málnotendur orðið, annars staðar eru það opinberar málræktarstofnanir sem sjá um valið og enn annars staðar fyrirtæki á sviði orðabókagerðar. Hér var nýlega nefnt að Oxford-orðabókin valdi rizz sem orð ársins í Bretlandi en Bandaríkjunum valdi Merriam-Webster orðabókin aftur á móti authentic þótt rizz væri einnig ofarlega á blaði þar. Í Danmörku er valið úr tillögum málnotenda í samvinnu dönsku málnefndarinnar, Dansk Sprognævn, og útvarpsþáttarins „Klog på Sprog“.
Orðið sem varð fyrir valinu í Danmörku þetta árið er ChatGPT. Það er vitanlega mjög sérstakt orð, ef orð skyldi kalla – fyrri hlutinn er enska orðið chat og borinn fram eins og það orð, en seinni hlutinn er skammstöfunin GPT sem stendur fyrir Generative Pre-trained Transformer, og sá hluti er ekki borinn fram sem heild heldur hver bókstafur fyrir sig. Þessi samsetning er vitanlega orðin mjög algeng í íslensku samhengi líka en ég býst þó varla við því að hún komi til álita sem orð ársins í íslensku. Þótt tökuorð úr ensku eigi tiltölulega greiða leið inn í málið og falli oft ágætlega að því er mér til efs að við myndum nokkurn tíma kalla þetta íslenskt orð – eða orð yfirleitt – til þess er bæði orðhlutagerð þess og hljóðafar of framandi.
Orð með skammstöfun sem seinni lið á sér ekki fordæmi í íslensku og kemur í veg fyrir að hægt sé að taka ChatGPT inn í málið í óbreyttri mynd. En við það bætist hljóðafarið. Orðið chat er í ensku borið fram [tʃæt] og hvorki [tʃ] né [æ] eru venjuleg íslensk málhljóð. Við setjum a í stað [æ] og getum sett tsj í stað [tʃ] en engin íslensk orð byrja á tsj- þótt vissulega séu tökuorð eins og tsjilla algeng í óformlegu máli. Svo er spurning hvernig lesum úr seinni hlutanum, GPT, sem ekki hefur að geyma nein sérhljóð og er því ekki hægt að bera fram sem orð. Notum við þá ensk heiti bókstafanna (aðlöguð íslenskum framburði) og segjum tsjattdsjípítí eða eitthvað í þá átt, eða notum við íslensku heitin og segjum tsjattgépété? Tíminn verður að leiða það í ljós.