Eru skammstafanir og styttingar orð?

Út frá umræðu um ChatGPT fór ég að velta fyrir mér hvernig við förum með ýmis heiti sem eru skammstöfuð eða stytt, bæði þau sem koma af íslenskum orðum og þau sem eru fengin erlendis frá. Oft eru heitin stöfuð, t.d. ká-err (KR, Knattspyrnufélag Reykjavíkur), bé-ess-err-bé (BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja), emm-ess (MS, Mjólkursamsalan eða Menntaskólinn við Sund), ess-eff-ess (SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi), ká-eff-sé (KFC, Kentucky Fried Chicken) o.s.frv. Þessar skammstafanir innihalda engin sérhljóð og eru því óframberanlegar sem orð – eff-ess-u (FSu, Fjölbrautaskóli Suðurlands) inniheldur að vísu sérhljóð en fs í upphaf orðs samræmist ekki hljóðskipunarreglum og er því líka óframberanlegt.

En skammstafanir sem hafa að geyma sérhljóð og falla að hljóðskipunarreglum íslensku eru stundum bornar fram sem orð, t.d. KRON (Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis), SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga), BYKO (Byggingarvöruverslun Kópavogs), VÍS (Vátryggingafélag Íslands), SPRON (Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis) o.fl. Þetta er þó ekki algilt. Ég held t.d. að SA (Samtök atvinnulífsins) sé yfirleitt borið fram ess-a, ekki sa, ASÍ (Alþýðusamband Íslands) er borið fram a-ess-í, ekki así, UMFÍ (Ungmennafélag Íslands) er borið fram u-emm-eff-í, ekki umfí, (Fjölbrautaskólinn við Ármúla) er borið fram eff-á, ekki , o.fl. Stundum er þessu blandað saman – FMOS (Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ) er borið fram eff-mos.

En jafnvel þær skammstafanir og styttingar sem eru bornar fram sem orð haga sér yfirleitt öðruvísi en venjuleg orð – þær fallbeygjast nefnilega sjaldan eða aldrei. Það var aldrei talað um *kaupfélagsstjóra KRONS eða *sparisjóðsstjóra SPRONS, og aldrei sagt *ég keypti þetta í KRONI eða *ég fékk lán hjá SPRONI. Oft er reynt að forðast aðstæður þar sem þarf að vísa til kyns skammstafananna, en ef nauðsynlegt er að gefa þeim eitthvert kyn fer það líklega oftast eftir aðalorði sambandsins sem skammstöfunin vísar til. Þótt KRON og SPRON virðist hliðstæð orð held ég að við myndum segja KRON er farið á hausinn (af því að aðalorðið er kaupfélag) en aftur á móti SPRON er farinn á hausinn (af því að aðalorðið er sparisjóður).

Einnig má nefna erlendar skammstafanir sem við vitum ekki endilega – eða hugsum ekki út í –  að eru skammstafanir, eins og IKEA (Ingvar Kamprad Elmtaryd Agunnaryd), og styttingar sem gætu eins verið sjálfstæð orð, s.s. Eimskip (Eimskipafélag Íslands), Brunabót (Brunabótafélag Íslands), Eymundsson (Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar) o.fl. Þessar styttingar beygjast ekki heldur, eða a.m.k. minna en venjuleg orð. Eimskip er oft endingarlaust í eignarfalli þótt það fái oft endingu eignarfalls eintölu eða fleirtölu, Eimskips eða Eimskipa, og þótt skip eitt og sér sé alltaf skipi í þágufalli er langoftast sagt hjá Eimskip. Einnig er alltaf sagt hjá Eymundsson en ekki *Eymundssyni í þágufalli og bókabúð Eymundsson en ekki *Eymundssonar í eignarfalli.