Grunur leikur á um
Nýlega sá ég sambandið grunur leikur á um að notað í Heimildinni: „Laxeldisfyrirtækið Arnarlax telur sig ekki þurfa að tilkynna Matvælastofnun (MAST) um öll göt sem finnast á sjókvíum fyrirtækisins nema þegar grunur leikur á um að fiskur hafi sloppið út um þau.“ Ég hef svo sem séð þetta áður en er samt vanur orðalaginu grunur leikur á að, án um, eins og t.d. á vef Ríkisútvarpsins nýlega: „Grunur leikur á að strokulaxar sem sloppið hafa úr kvíum séu að synda upp ár á Vestfjörðum og Norðvesturlandi.“ Í Íslenskri orðabók er sambandið grunur leikur á einhverju gefið upp í merkingunni ‚menn grunar e-ð‘, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið grunur leikur á að gefið upp, en hvorug bókin hefur grunur leikur á um að.
Ég stóð í þeirri meiningu að grunur leikur á um að væri nýlegt samband, líklega blöndun milli grunur leikur á að og grunur er um að. En þegar ég fór að skoða þetta reyndist sambandið alls ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég fann um það er í Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands 1870: „grunur lék á um, að séra Hjálmar sálugi Guðmundsson hefði farið ólöglega með skóga prestssetursins Hallormstaðar.“ Annað dæmi er í Fjallkonunni 1899: „Í 9. gr. er fyrirskipað að engan, sem grunur leikur á um, að hafi næman sjúkdóm, megi bólusetja eða endurbólusetja öðruvísi enn með bóluefni úr pípum.“ Í Templar 1913 segir: „Það mætti reyna að tala við þá menn sem grunur leikur á um að áfengi selji ólöglega og reyna að fá þá til að hætta því.“
Alls eru rúm fjögur hundruð dæmi um grunur leikur á um að á tímarit.is, en hátt á ellefta þúsund um grunur leikur á að og tæp ellefu hundruð um grunur er um að. Í Risamálheildinni eru tæp þúsund dæmi um grunur leikur á um að en tæp þrettán þúsund um grunur leikur á að en rúm 2300 um grunur er um að. Það er því enginn vafi á að grunur leikur á að, án um, er aðalmynd sambandsins en myndin grunur leikur á um að hefur greinilega verið að sækja í sig veðrið á þessari öld. Þótt sú mynd sambandsins hafi ekki komist í orðabækur er hún bæði svo gömul og svo algeng að ekki er hægt að líta fram hjá henni og engin ástæða til að amast við henni. Mér finnst sjálfsagt að líta svo á að bæði þessi sambönd séu rétt og eðlileg íslenska.
Annað svipað samband er vafi leikur á (að) og vafi leikur á um (að). Hér gildir það sama, að samböndin með um eru ekki í orðabókum. Þau eru þó gömul – „Nokkur vafi leikur á um kjörgengi Sigurðar búfræðings“ segir í Þjóðólfi 1900 en elsta dæmi án um er litlu eldra: „þjóðin lýsti vilja sínum svo skýrt á fundinum, að enginn vafi leikur á því“ segir í Þjóðviljanum 1889. Elsta dæmi með á að er „Enginn vafi leikur á, að sá herra verði úr flokki demokrata“ í Lögbergi 1897, en elsta dæmi með á um að er „Útsölumönnum er skylt að heimta skilríki af kaupanda, ef vafi leikur á um, að honum megi afhenda áfengi“ í Íslendingi 1938. Samböndin með um eru 10-20 sinnum sjaldgæfari en hin, en engin ástæða er samt til annars en telja þau góð og gild.