Að ausa
Í hópnum Skemmtileg íslensk orð sá ég að bent var á Facebook-færslu um mann sem „ausar heita súkkulaðinu á könnur“. Höfundur innleggsins taldi að þarna ætti fremur að vera eys en ausar, og vissulega er það hin hefðbundna og viðurkennda beyging sagnarinnar ausa. Þessu fylgdu svo hinar venjulegu, lítt uppbyggilegu og kolröngu athugasemdir um að fólk kynni ekki að beygja lengur, ekkert væri lengur kennt í skólum, það mætti ekkert leiðrétta lengur, beygingar væru að fara úr tísku, þetta væri eins og smábarn að tala o.s.frv. Í staðinn fyrir að taka undir með þeim kór skulum við skoða aðeins beygingu sagnarinnar ausa og velta fyrir okkur hvers vegna myndir eins og ausar komi upp í stað hefðbundinna mynda.
Sögnin ausa er sögulega séð ein svonefndra tvöföldunarsagna en í nútímamáli er ástæðulaust að greina þær frá sterkum sögnum. Þessar sagnir eiga það sameiginlegt að mynda þátíð með hljóðbreytingum (hljóðskiptum) í stofni en ekki með sérstakri þátíðarendingu, -ði, -di eða -ti. Auk þess eru oft ýmsar hljóðbreytingar í nútíðarbeygingu sagnanna. Þannig er ey- í stað au- í framsöguhætti eintölu af ausa (ég eys – þú eyst – hann/hún/hán eys). Í framsöguhætti eintölu í þátíð kemur jó- í stað au- (ég jós – þú jóst – hann/hún/hán jós), og í fleirtölunni kemur ju- í staðinn (við jusum – þið jusuð – þeir/þær/þau jusu). Þessi hljóðavíxl eru ekki algeng en sagnirnar auka og hlaupa beygjast þó eins (nema hlaupa hefur nú hlupum í stað hljópum).
Fáein dæmi er hægt að finna um reglulega beygingu sagnarinnar ausa, þó nær eingöngu á samfélagsmiðlum. Meðal örfárra dæma úr formlegra máli má nefna „Drogba ausar lofi yfir Essien“ í Vísi 2006, og „þáttarstjórnandi þáttarins […] ausaði aðeins úr brunni sínum“ í Vísi 2016. Alls eru um 40 dæmi um reglulegar persónuháttarmyndir ausa í Risamálheildinni – ausa og ausar í stað eys, ausaði í stað jós, ausaðir í stað jóst og ausuðu í stað jusu. Lýsingarhátturinn sker sig svo úr – hátt í 40 dæmi eru um veiku myndina ausað í stað sterku myndarinnar ausið, það elsta í Morgunblaðinu 1999: „Húsið tók ekki nema um klukkustund að brenna til grunna þótt að vatni hafi verið ausað á það.“ Sennilega stafar þetta af því hversu líkar myndirnar eru.
En framsöguháttarmyndirnar eru samt ekki það flóknasta í beygingu sagnarinnar ausa. Í athugasemd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Í Stafsetningarorðabókinni (2016) er viðtengingarháttur þátíðar af sögninni ausa hafður ysi. Hjá Valtý Guðmundssyni (Islandsk grammatik 1922) er þriðja kennimynd jusum (usum) og viðtengingarháttur þátíðar jysi (ysi). Í Ritmálssafni, Íslensku textasafni og Risamálheildinni eru dæmi um báðar beygingarmyndirnar í viðtengingarhætti þátíðar.“ Sömu tilbrigði koma fram í beygingu sagnarinnar auka. Mér finnst bæði jysi og ysi koma ankannalega fyrir sjónir enda eru allar þessar myndir ákaflega sjaldgæfar – virðast vera innan við tíu dæmi um þær samtals í Risamálheildinni, flestar með ju-/jy-.
Það er ekkert undarlegt að sögn með svona fjölbreytta og flókna beygingu hafi tilhneigingu til að einfaldast, og vitanlega eru ýmis dæmi um að sagnir sem voru sterkar í fornu máli hafi nú fengið reglulega beygingu eða sýni tilhneigingar til þess. Ýmis dæmi um þetta eru fullkomlega viðurkennd og sterka myndin horfin úr málinu – hjálpaði er komið í stað halp, bjargaði í stað barg, blandaði í stað blett o.fl. Nýlega var hér líka skrifað um myndina bjóu í stað bjuggu sem stundum bregður fyrir, en búa er einmitt tvöföldunarsögn eins og ausa og beygist svipað. En reglulega beygingin af ausa virðist vera mjög sjaldgæf, enn sem komið er að minnsta kosti, og þess vegna eðlilegt að sporna við henni og reyna að halda í hefðbundna beygingu sagnarinnar.