Posted on Færðu inn athugasemd

Óttar, hræðslur, fælnir – og fíknir

Í innleggi í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í gær spurt hvort orðið ótti væri til í fleirtölu en fyrirspyrjandi hafði heyrt talað um að fólk væri oft með marga ótta. Stutta svarið er auðvitað að úr því að orðið var notað í fleirtölu þá er það til í fleirtölu – annars hefði ekki verið hægt að nota það. Um leið og einhver orðmynd eða beyging er notuð þá er hún orðin til. Það þýðir samt ekki að hún sé viðurkennd eða hægt sé að mæla með notkun hennar, og vissulega er engin fleirtölubeyging gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda engin hefð fyrir því að nota orðið ótti í fleirtölu. En í framhaldi af þessu má spyrja um tvennt: Er farið að nota þetta orð eitthvað að ráði í fleirtölu; og ætti þá að láta slíka notkun afskiptalausa eða amast við henni?

Í Risamálheildinni má finna fáein dæmi um að ótti sé notað í fleirtölu, langflest af samfélagsmiðlum. Í Vísi 2021 segir: „Á sama tíma þarf Jin að takast á við gamla ótta.“ Í fréttum Ríkisútvarpsins 2021 segir: „Hljómsveitarmeðlimir takast jafnvel á við ýmsa ótta þegar kemur að búningavali.“ Á Bland.is 2006 segir: „Mínir verstu óttar eru að missa einhvern náinn úr fjölskyldunni og/eða vera grafin lifandi.“ Á Bland.is 2007 segir: „Þegar ég var ólétt, var einn af mínum óttum einmitt sá að eignast rauðhært barn.“ Á Bland.is 2016 segir: „Að baki báðum óttum liggja ekki neikvæðar hugsanir til hvors annars heldur til ykkar sjálfs.“„Á Twitter 2021 segir: „Te sem lætur mig upplifa mína verstu ótta og hræðilegustu minningar.“

Ótti birtist í ýmsum myndum og það eru til ýmsar samsetningar með -ótti, svo sem guðsótti, innilokunarótti, málótti, þrælsótti, þótt samheitið -hræðsla sé oftar notað í samsetningum – flughræðsla, lofthræðsla, sjóhræðsla, þjófhræðsla o.m.fl. Einnig er oft talað um fælni í svipuðu samhengi þótt það sé stundum sterkara og merki 'sjúkleg hræðsla við eða óbeit á einhverju' – áhættufælni, hommafælni, myrkfælni, vatnsfælni o.fl. Þegar ótti er notað í fleirtölu virðist oftast vera vísað til mismunandi tegunda af ótta, hræðslu eða fælni, eins og þegar sagt er „Allir mínir óttar hafa komið fram í þessari bílferð“ í Vísi 2018 eða „Meira að segja í Heljarkambinum og Kattarhrygginum naut ég þess að geta þetta og sigra mína ótta“ á mbl.is 2019.

Orðin hræðsla og fælni eru yfirleitt ekki notuð í fleirtölu frekar en ótti, en eins og við er að búast má samt finna slæðing af fleirtöludæmum um þau orð. Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Þetta er ritgerð mín um undarlegar hræðslur“ (í myndasögu, þýðing á „strange phobias“). Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Þú varðst opnari við mig, byrjaðir að tala um tilfinningar, drauma, þrár og hræðslur.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þar hef ég náð góðum árangri, sem og með lofthræðslu og aðrar fælnir“ og „Það er líka þannig með fælnir að það er auðvelt að mæla árangurinn“. Í Vísi 2019 segir: „Sífellt fleiri einstaklingar líta nú á dáleiðslumeðferðir sem raunhæfan kost í því að losna við kvíða, þunglyndi, óæskilega ávana, fælnir o.s.frv.“

Hér hefur margoft verið skrifað um orð sem áður voru eingöngu höfð í eintölu en sjást nú iðulega í fleirtölu, síðast um orðið húsnæði. Oftast stafar breytingin af því að farið er að nota orðin um einstök afbrigði eða birtingarmyndir þess sem um ræðir – í þessu tilviki ótta, hræðslu eða fælni. En mörg orð hafa breyst á sama hátt á undanförnum árum, jafnvel án þess að við höfum tekið eftir því. Orðið fíkn var fram á níunda áratuginn nær eingöngu notað í eintölu og er sýnt þannig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en fáum öðrum en Málfarsbankanum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við fleirtöluna fíknir. Vel má vera að ýmsir óttar, hræðslur og fælnir þróist á sama hátt – það er ekki óeðlilegt þótt auðvitað þurfi að venjast því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Notum íslensku ef það er mögulegt

Talsverðar umræður hafa orðið um skrif mín hér í gær um sölusíðu á Facebook sem er eingöngu á ensku, og þar sem allar pantanir og önnur samskipti fara fram á ensku. Ég vil taka fram að með því að segja þetta vera á gráu svæði, og vísa í tiltekna lagagrein, átti ég við að þetta færi gegn anda laganna að mínu mati. En eins og bent var á í umræðum er auðvitað hægt að skilgreina markhóp að vild, og auk þess telur Facebook sig væntanlega ekki þurfa að hlíta íslenskum lögum, þannig að ég geri ekki ráð fyrir að síðan brjóti nokkur lög. Enda hef ég enga trú á því að íslenskunni verði viðhaldið með lögum. Hún lifir því aðeins að málnotendur vilji það, vinni að því, og noti hana þegar kostur er, og það var einmitt ástæða skrifa minna.

Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, og umræður um, var að þarna eru Íslendingar í stórhópum að panta á ensku – á síðu sem augljóslega er einkum beint að Íslendingum, enda þótt hún sé á ensku. Er það eðlilegt – eigum við að gera kröfu um að geta notað íslensku í viðskiptum á Íslandi? Eða er alltaf sjálfsagt að nota ensku af minnsta tilefni – eða jafnvel að tilefnislausu? Erum við kannski komin í þá stöðu að enskan gengur alltaf, íslenskan bara stundum? Eftir því sem þeim tilvikum fjölgar þar sem við notum ensku finnst okkur það sjálfsagðara og eðlilegra – hættum smám saman að prófa að nota íslensku í ýmsum aðstæðum, og hættum á endanum að taka eftir því hvort við erum að nota íslensku eða ensku.

Ég veit vel að þetta er viðkvæm umræða sem auðveldlega snýst upp í – og auðvelt er að snúa upp í – einhvers konar útlendingaandúð. Það má ekki gerast, og við megum ekki gera óraunhæfar eða ómálefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu til fólks sem hingað flyst, eða halda því niðri vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá okkur sem eigum íslensku að móðurmáli – það er okkar að halda íslenskunni á lofti, nota hana þar sem kostur er, og auðvelda innflytjendum að læra hana og nota. En mér finnst ekki ómálefnalegt að koma því á framfæri við fólk sem stundar viðskipti eða þjónustustörf að okkur finnist skipta máli að geta átt samskipti á íslensku, og metum það mikils ef okkur er gert það kleift.

Í umræðum var nefnt að fólki fyndist væntanlega skrítið að eiga samskipti á tveimur tungumálum og vegna þess að umrædd síða væri á ensku skrifi fólk þar sjálfkrafa á ensku. Það er örugglega rétt en þá má hafa í huga að innflytjendur skilja oft miklu meira í íslensku en þeir treysta sér til að tala eða skrifa – eins og raunar kemur fram í samskiptum á síðunni. Ég held einmitt að það sé mikilvægt að við venjum okkur á tvímála samskipti – prófum alltaf að nota íslensku og höldum því áfram ef við sjáum að það skilst, en kippum okkur ekkert upp við þótt svarað sé á ensku. Þannig veitum við fólkinu þjálfun í íslensku og hvetjum það til að reyna sjálft að nota málið í stað þess að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að enska sé alltaf sjálfsögð.