Fíknir, fíklar og fíkniefni
Kvenkynsorðið fíkn á sér rætur í lýsingarorðinu fíkinn og sögninni fíkjast. Orðið kemur fyrst fyrir kringum 1800 en seint á 19. öld kemur myndin fíkni einnig til. Sú mynd hefur þó alltaf verið mun sjaldgæfari og kemur tæpast fyrir í nútímamáli nema í samsetningum. Ég kann ekki að skýra tengslin milli þessara tveggja mynda en þau gætu verið mynduð með mismunandi kvenkynsviðskeytum, -n (eins og í sókn, sbr. sækja) og -ni (eins og í fælni, af fælinn) sem bæði eru til í málinu. En einnig gætu tvímyndir átt rætur í mynd orðanna með greini sem er sú sama af bæði fíkn og fíkni, þ.e. fíknin. Sé gert ráð fyrir því að fíkn sé eldri mynd er hugsanlegt að myndin fíkni hafi orðið til þannig að fíknin hafi verið túlkað sem fíkni+n í stað fíkn+in.
Í Íslenskri orðabók er fíkn skýrt 'áköf löngun, sjúkleg fýsn' en í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin orðin tæknilegri, ef svo má segja – 'það að vera háður einhverju og fá fráhvarfseinkenni þegar ástundun eða neyslu er hætt, ávanabinding'. Orðið hefur sem sé eiginlega verið gert að íðorði og er komið inn í nokkur söfn í Íðorðabankanum sem samsvörun við addiction í ensku. Orðið virðist hafa fengið þetta hlutverk á níunda áratugnum eins og ráða má af breytingum á tíðni þess sem jókst mjög á þeim tíma, og ekki síður af breyttri beygingarlegri hegðun. Þessi merkingarbreyting hefur nefnilega leitt til þess að farið er að tala um og skilgreina margar tegundir af fíkn – sem verður eðlilega margar fíknir.
Fram á níunda áratuginn var orðið nær eingöngu notað í eintölu. Ég hef aðeins rekist á fjögur dæmi um fleirtölumyndir þess fyrir 1985, það elsta í Hauki 1898: „þeir þvert á móti, með hinum dýrslegu fíknum sínum, hafa algerlega afmáð rjett sinn til þess, að byggja heiminn.“ Íslensk orðabók gerir ekki ráð fyrir að orðið sé í fleirtölu og eingöngu eintölubeyging er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En árið 1985 eru nokkur dæmi um fleirtölu orðsins í blöðum, og þeim fer ört fjölgandi upp frá því. Í Risamálheildinni er á áttunda hundrað dæma um fleirtölumyndir orðsins og fáum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við það, þótt Málfarsbankinn segi reyndar: „Ekki er mælt með því að nota nafnorðið fíkn í fleirtölu.“
Fleiri málfarslegar nýjungar tengjast orðunum fíkinn og fíkn. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1979 birti Gísli Jónsson bréf frá Herði Jónassyni á Höfn þar sem segir: „[M]ér fannst orðið „dópisti“ ljótt og sjálfsagt ekki íslenskt og einnig að orðið eiturlyfjaneytandi er ekki nógu mikið notað og fannst mér því að fíkill gæti átt við í þessu tilefni. Þetta er í ætt við að vera fíkinn í eitthvað.“ Þetta er elsta dæmi sem ég finn um orðið og tvö næstu dæmi um það á tímarit.is eru einnig úr þáttum Gísla, 1980 og 1984, þar sem hann er að hnykkja á þessu orði. En 1985 koma nokkur dæmi og upp úr því fjölgar þeim ört, rétt eins og fleirtölumyndum orðsins fíkn. Nú er orðið gífurlega algengt – yfir 19 þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni.
Í samsetningum er myndin fíkn ekki notuð heldur hliðarmyndin fíkni eins og áður er nefnt, enda eru orð sem enda á samhljóðaklasa eins og kn mun stirðari í samsetningum. Elsta samsetningin virðist vera fíknilyf en elsta dæmið um það orð er í yfirliti um væntanleg fræðsluerindi Háskóla Íslands í Alþýðublaðinu 1966 – erindi Þorkels Jóhannessonar heitir „Um fíknilyf“. Áður hafði oftast verið talað um eiturlyf og því ekki óeðlilegt að búin sé til samsetning með -lyf en líklega hefur við nánari athugun þótt óheppilegt að nota það orð og því var farið að nota orðið fíkniefni í staðinn – elsta dæmi um það er í Heilbrigðisskýrslum 1969 þar sem vísað er í „Reglugerð […] um ávana- og fíkniefni“. Það orð varð fljótt yfirgnæfandi en fíknilyf hefur að mestu horfið.