Nærgætni og tillitssemi í orðavali

Eitt af því vandmeðfarnasta og viðkvæmasta í málnotkun er orðafar um minnihlutahópa og fólk sem á undir högg að sækja af ýmsum ástæðum. Sum slík orð sem þóttu eðlileg á sinni tíð hafa verið gerð útlæg úr venjulegu máli vegna þess að þau þykja sýna fordóma í garð þeirra sem þau vísa til – orð eins og fáviti, kynvillingur, negri o.fl. Ef fólk notar slík orð nú er það gert á meðvitaðan hátt til að sýna andúð eða fyrirlitningu á viðkomandi hópum. En erfiðara er að fást við orð sem ekki fela í sér augljósa fordóma og eru (yfirleitt) ekki notuð í því skyni að láta andúð í ljósi – en fólk úr þeim hópum sem vísað er til upplifir samt sem smættandi eða niðurlægjandi á einhvern hátt. Þetta er líka sífellt að breytast og ný orð að bætast í þennan hóp.

Í gær var ég að skrifa hér um orðið fíkn og ýmis orð sem það hefur getið af sér, m.a. nafnorðið fíkill sem var búið til um 1980 í stað orða eins og dópisti og eiturlyfjasjúklingur. Frá málfræðilegu sjónarmiði er fíkill mjög gott orð – rétt myndað, lipurt og gagnsætt. En í umræðu um þetta kom fram það sjónarmið að fíkill væri samt sem áður vont orð vegna þess að með því væri „fólk skilgreint út frá sjúkdómi sínum en ekki mennsku sinni eða hverju öðru sem við merkjum fólk með“. Ég hafði ekki hugsað út í þetta, enda var ég eingöngu að skrifa um orðið frá málfræðilegu sjónarmiði. En þegar að er gáð er þetta rétt og ég tek undir það, án þess að ég ætli að ganga svo langt að leggja til að við hættum að nota orðið fíkill. En aðrir kostir eru til.

Þetta minnir á að á seinni árum hefur verið unnið gegn því að lýsingarorð ein og sér séu notuð til að skilgreina hópa fólks. Í staðinn er haft viðeigandi lýsingarorð með orðinu fólk eða talað um fólk með – og svo viðeigandi nafnorð. Á vef Öryrkjabandalags Íslands er ágæt síða um orðræðu þar sem segir: „Notum orð um fólk sem sátt er um að séu notuð.“ Meðal dæma sem þar eru tekin eru fatlað fólk, hreyfihamlað fólk, blint fólk, fólk með sjónskerðingu, fólk með heyrnarskerðingu, fólk með þroskahömlun, fólk með geðraskanir o.fl. Í stað þess að tala um einhverfa má tala um fólk með einhverfu, í staðinn fyrir að tala um geðsjúklinga eða geðfatlaða má tala um fólk með geðfötlun – og í staðinn fyrir að tala um fíkla má tala um fók með fíkn.

Hugsunin á bak við þessar breytingar er sú sama og nefnd var að framan – að forðast að láta sjúkdóma eða hamlanir skilgreina fólk. Fólkið sjálft er aðalatriðið, en sjúkdómurinn eða hömlunin fylgir með til að ná utan um viðkomandi hóp. Þetta snýst um tilfinningu þeirra sem tilheyra þessum hópum og mér finnst mikilvægt að við séum meðvituð um hana – og tökum tillit til hennar ef þess er kostur. Fólk er almennt séð gott, og yfirleitt hvorki ætlum við að meiða fólk með orðfæri okkar né gerum okkur grein fyrir því að við séum að því. En með því að fara eftir óskum af þessu tagi um breytta orðanotkun hættum við vissulega á að vera sökuð um vekni (wokeness) – að vera óeðlilega meðvirk og hlaupa eftir pólitískri rétthugsun, vera „woke“.

Ég hef svo sem engar áhyggjur af því, en þetta er samt oft snúið vegna þess að við höfum flest alist upp við „óæskilegu“ orðin sem hin venjulegu orð um viðkomandi hópa, og auk þess er orðalagið sem mælt er með iðulega lengra og stirðara en orðin sem hafa verið notuð. Það er ekkert undarlegt að það vefjist fyrir mörgum að gefa upp á bátinn lipur orð sem löng hefð er fyrir í málinu og taka í staðinn upp orðasambönd sem engin hefð er fyrir í málinu og virðast stundum beinþýdd úr ensku. Því skiptir það máli að fólk upplifi ekki óeðlilegan þrýsting til að breyta orðafari sínu – það getur haft þveröfug áhrif. Þess vegna er fræðsla um þetta svo mikilvæg – ásamt tillitssemi og virðingu fyrir öðru fólki, tilfinningum þess og málnotkun.