Í hring í kringum allt sem er
Nýlega var sambandið í kringum hér til umræðu, í tengslum við frétt í DV þar sem kona á mynd var sögð „í kringum stóra steina“ í staðinn fyrir innan um stóra steina eða með stóra steina í kringum sig. Þetta minnti mig á að merking þessa orðs hefur áður verið rædd hér í tengslum við setningar eins og „Mér finnst best að vera í kringum fjöllin“ og „Mér finnst svo þægilegt að vera í kringum hana Helgu“. Orðið kringum er upphaflega þolfall af karlkynsorðinu kringur sem merkir 'hringur' að viðbættri forsetningunni um – „Pílatus sest yfir dómstól sinn og setur vopnaða riddara í kring um sig“ segir í Gyðinga sögu. Síðar renna orðin saman í eitt og þá er í oft sleppt – „Möndull gengur tvisvar rangsælis kringum valinn“ segir í Göngu-Hrólfs sögu.
Í fornu máli virðist í kring um / kringum alltaf hafa bókstaflega merkingu, þ.e. 'umhverfis'. Það gildir bæði um staðarmerkinguna sem kemur fram í dæmunum hér á undan og einnig um tímamerkingu sambandsins, ‚árið um kring‘. Svo virðist sem oft sé gert ráð fyrir því að þetta gildi enn. Í Íslenskri orðabók er atviksorðið kringum skýrt 'nálægt, um það bil' en um forsetninguna kringum segir 'oft í sambandinu í kringum • umhverfis'. En ef þetta væri eina merkingin væri orðinu hringinn ofauki í sambandinu hringinn í kringum. Það samband kemur þó fyrir nærri sjö þúsund sinnum á tímarit.is og rúmlega sjö þúsund sinnum í Risamálheildinni sem bendir til þess að í kringum eitt og sér sé ekki endilega túlkað sem 'umhverfis'.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru líka gefnar fimm merkingar forsetningarinnar í kringum, þar af tvær sem hafa staðarmerkingu – 'allan hringinn utan um (e-ð)' og 'á svæðinu við (e-ð)'. Það er augljóslega síðarnefnda merkingin sem á við í dæmunum sem vísað var til í upphafi þótt ég myndi fremur orða skýringuna 'í grennd við, í návist við' en 'á svæðinu við'. Þessi merking er gömul í málinu – „Eg fraus aðra stundina, svo eg skalf upp og niður, þó eg sæti kringum kakalóninn“ segir í texta frá 17. öld í 5. bindi Blöndu. Vissulega er þó oft vísað til einhvers sveigs eða boga þótt ekki sé um heilan hring að ræða. Í Syrpu 1920 segir t.d. „Leffingwell og Mikkelsen ákváðu að sigla kringum Alaska“ – en útilokað er að sigla hringinn í kring.
Það er mjög algengt að ekki sé hægt að greina fyrir víst milli áðurnefndra tveggja staðarmerkinga en ef ekki er sagt hringinn í kringum virðist sú síðarnefnda mjög oft eiga við. Í Vikunni 1942 segir t.d.: „Hann elti föður minn heim, hékk alltaf í kringum hann“. Í Árdísi 1947 segir: „Áður en þetta kom fyrir [….] voru þau alltaf í kringum mig.“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1973 segir: „Mennirnir vöndust því, að hafa hann alltaf í kringum sig.“ Í þessum dæmum er nokkuð augljóst að merkingin er 'í grennd við', en þarna vísar vera í kringum til hreyfingar og líklegra er hæpnara að nota það orðalag þegar um kyrrstöðu er að ræða, þótt það sé gert í 17. aldar dæminu og dæminu úr DV í upphafi. Ég held samt varla að hægt sé að kalla það rangt.