Það sést hver drekka Kristal

Fyrir helgi birtist í Vísi frétt með fyrirsögninni „Ölgerðin breytir slagorðinu fyrir Kristal“. Þar er sagt frá því að í tengslum við vottun Samtakanna ´78 á Ölgerðinni sem hinseginvænum vinnustað hafi verið gerð smávægileg breyting á slagorðinu „sem þjóðin hefur þekkt sem „Það sést hverjir drekka Kristal.“ Kristall er hins vegar fyrir okkur öll og uppfært slagorð er því „Það sést hver drekka Kristal“ og þannig er gert ráð fyrir öllum kynjum“ segir forstjóri Ölgerðarinnar. Þarna er sem sé fleirtala hvorugkyns af spurnarfornafninu hver sett í stað karlkynsfleirtölunnar hverjir. Vitanlega er það sést hver drekka Kristal í fullu samræmi við málkerfið þótt það kunni að villa um fyrir einhverjum að fleirtala hvorugkyns af spurnarfornafninu hver er líka hver.

Þótt karlkynsmynd spurnarfornafnsins hafi fram til þessa verið notuð í slagorðinu hefur vitanlega ekki verið gert ráð fyrir því að eingöngu karlar drekki Kristal, heldur hefur hverjir verið þarna í kynhlutlausri merkingu sem sjálfgefið málfræðilegt karlkyn eins og hefð er fyrir í málinu. En samkvæmt minni máltilfinningu a.m.k. er það sést hver drekka Kristal ekki í neinu ósamræmi við málhefðina. Með því að nota sögnina sjá búum við til ímyndaðan hóp sem vísað er til í setningunni og þar með getum við notað vísandi hvorugkyn og sagt hver. Það er sem sé hægt að nota hvort heldur sjálfgefið málfræðilegt karlkyn og segja það sést hverjir drekka Kristal eða vísandi hvorugkyn og segja það sést hver drekka Kristal. Hvort tveggja stenst.

Vitanlega er það samt rétt að venjan hefur verið að nota karlkyn í dæmum á við þessu. En málvenjur geta breyst – og þurfa stundum að gera það til að svara kalli tímans. Auðvitað er Ölgerðin í fullum rétti að breyta slagorði sínu en það þýðir vitaskuld ekki að við þurfum að breyta máli okkar. Út frá umræðu á samfélagsmiðlum, ekki síst í Facebookhópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð, mætti þó ætla að verið væri vinna meiriháttar skemmdarverk á málinu í þágu fámenns en heimtufreks hóps sem „trúir því allt í einu að kynin séu fleiri en tvö“. Í þessum hópum eru komnar samtals hátt í 300 athugasemdir við innlegg um málið – allmargar jákvæðar en mikill meirihluti þó neikvæðar eins og eftirfarandi dæmi sýna:

„Þetta er kolruglað. Það er verið að stórskemma okkar fallega mál; Þetta er bara hallærislegt en það er kannski tískan í dag; Þessa bull málnotkun skal enginn maður fá mig til að nota; Alger fáviska; þetta er svo heimskulegt að engum tárum tekur, það á að nota óákveðna fornafnið rétt, annað er heimska; Glatað; Ömurlegt; Asnaleg breyting til hins verra; barnamál; Alveg einstaklega hálfvitalegt, og getur hreinlega ekki verið málfræðilega rétt; skelfileg rétthugsunarhandaflsmálþróun; Þeir sýna íslensku máli lítilsvirðingu; Rétt ein málvillan; þetta er meira ruglið; Fáránlegt; Málfarsleg fátækt, eymd og volæði villuráfandi málvillinga; Sorglegt metnaðarleysi; Algjört rugl; Hallærisleg aðför að tungumálinu; Asnalegt bara, smábarna mál.“

Mun fleiri dæmi mætti taka, og ég verð að segja að það er eitthvað annað en umhyggja fyrir tungumálinu og notendum þess sem býr á bak við athugasemdir af þessu tagi. Vitanlega er samt eðlilegt að skoðanir séu skiptar á þessari breytingu. En það liggur fyrir að ýmsum konum og kvárum finnst karlkynsmyndir fornafna og lýsingarorða ekki höfða til sín. Við getum auðvitað reynt að segja þeim að það sé misskilningur að karlkynsmyndirnar séu eitthvað útilokandi fyrir þau, en hæpið er að það breyti tilfinningu þeirra. Betra er, bæði fyrir málið og málnotendur, að sýna umburðarlyndi og taka tillit til tilfinninga fólks. Við þurfum ekki öll að tala eins, og við hljótum að geta unnt öðrum þess að nota málið svolítið öðruvísi en við gerum sjálf.