Frá augliti til auglitis – eða augnliti til augnlitis

Í gær var hér spurt hvort það væri þekkt að bera fram lokhljóð („hart g“, eins og í sigla) í sambandinu augliti til auglitis en fyrirspyrjandi hafði heyrt þennan framburð hjá fréttaþul. Meginreglan er sú að g er borið fram sem lokhljóð og f borið fram sem b á undan l og n, eins og í sigla, rigna, tefla, nefna o.s.frv. Það gildir hins vegar yfirleitt ekki ef um samsett orð er að ræða og orðhlutaskil á milli g/f og l/n – þá er borið fram önghljóð eins og í t.d. dag-lega, hag-nýta, hóf-legur, of-nota o.s.frv. Stundum eru slík orð þó skynjuð og meðhöndluð eins og þau væru ósamsett, eins og t.d. nafnið Signý sem oftast er borið fram með lokhljóði (öfugt við Dagný) og ég hélt í fljótu bragði að það væri ástæðan fyrir þessum framburði.

En svo fékk ég bakþanka og fór að skoða málið nánar. Þá kom í ljós að slæðingur er til af dæmum um orðmyndina augnlit, með fyrri liðinn augn-, í stað auglit, með fyrri liðinn aug-. Þannig segir t.d. í Alþýðublaðinu 1961: „En þegar maður sér hann augnliti til augnlits og talar við hann virðist hann hafa til að bera virðuleik háskóla borgarans.“ Í Víkurfréttum 2016 segir: „Henni finnst vænlegri aðferð að fara og tala við kjósendur augnliti til augnlits.“ Dæmi (sem gætu verið villur) eru um að báðar myndir komi fram í sömu setningu, eins og í Alþýðublaðinu 1976: „Hann opnaði augun og stóð augnliti til auglitis við sjóðandi bullandi myrkur“ og í Morgunblaðinu 1912: „Heyrðu vel það sem vinur segir án þess að þið séuð augliti til augnlits.“

Myndin augnlit getur vel staðist – ýmsar samsetningar hafa augn- sem fyrri lið svo sem augndropi, augnlæknir, augnsamband, augntóft, og svo karlkynsorðið augnlitur sem fellur saman við hvorugkynsorðið augnlit í sumum beygingarmyndum. Það er ekkert einsdæmi að til séu tvímyndir orða, myndaðar á mismunandi hátt en þó báðar í fullu samræmi við reglur málsins. Í myndinni augnlit kemur g næst á undan n án þess að orðhlutaskil séu á milli – þau koma á eftir n-inu – og því er g borið þar fram sem lokhljóð, eins og í t.d. rigna. Framburðurinn sem spurt var um er því ekki óvenjulegur eða rangur framburður á venjulegu myndinni auglit, heldur eðlilegur framburður á óvenjulegu – en réttu – orðmyndinni augnlit.

En fleiri tilbrigði eru í þessu orðasambandi. Venjuleg ending sterkra hvorugkynsorða í eignarfalli eintölu er -s en Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls segir: „Í orðasamböndum bregður fyrir eignarfallsmyndinni auglitis.“ Það er reyndar meira en þessu „bregði fyrir“ – á tímarit.is er augliti til auglitis hátt í tífalt algengara en augliti til auglits og í Málfarsbankanum segir „Ef. auglits eða auglitis“ þannig að hvort tveggja er viðurkennt. Væntanlega er þessi óvenjulega -is-ending tilkomin fyrir áhrif frá fyrra orðinu í sambandinu, þágufallsmyndinni augliti. En hvorugkynsorð geta líka endað á -i í nefnifalli, eins og kvæði, og hugsanlegt væri að gera ráð fyrir að til sé – eða hafi verið – myndin augliti sem yrði þá auglitis í eignarfalli.