Víða hvar
Um daginn rakst ég fyrir tilviljun á orðið víðahvar í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Málið átti að vera vandað, og er það líka á sumum stöðum, enn nokkurskonar tilgerð og sérílagi dönskusletturnar skemma þó víðahvar gott efni.“ Ég er vanur að nota efsta stig atviksorðsins víða í þessu sambandi og segja víðasthvar – eða víðast hvar. Athugun leiðir í ljós að víðahvar var nokkuð notað á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu en fremur lítið eftir það og er mjög sjaldgæft núorðið þótt dæmum bregði vissulega fyrir enn – reyndar oftast rituð í tvennu lagi, víða hvar. Efsta stigið víðast hvar, stundum ritað víðasthvar, hefur hins vegar verið margfalt algengara síðan um miðja 19. öld, en elstu dæmi um bæði samböndin eru frá 18. öld.
Kannski væri eðlilegast að líta á víðahvar og víðasthvar sem samsett orð en það er þó ekki gert í orðabókum heldur litið á þetta sem orðasambönd sem skýrð eru undir víða í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924: „v. hvar, paa mange Steder“ og „víðast hvar, paa de allerfleste Steder, næsten overalt“. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók: „víða hvar víða“; „víðast hvar á flestum stöðum“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er víðast hvar fletta í sömu merkingu. Þar sem ég nota ekki víða hvar átta ég mig ekki á því hvort notendur þessa sambands gera eða hafa gert áðurnefndan mun á merkingu þess og víðast hvar. Erfitt er að átta sig á því út frá ritmálsdæmum vegna þess að mjög oft gæti hvor merkingin sem er átt við og samhengi sker ekki úr.
Þrátt fyrir það er hægt að finna dæmi sem sýna að þessi munur hefur ekki alltaf verið gerður. Í DV 2013 segir t.d.: „Fjölskyldumynstrið er ansi ólíkt því sem þekkist víða hvar á Vesturlöndum. Fjölskyldan samanstendur nefnilega af einni eiginkonu, fimm eiginmönnum og einum syni.“ Þarna ætti merkingin 'á flestum stöðum' augljóslega fremur við en 'víða', og trúlegt að svo sé í mun fleiri dæmum þótt erfitt sé að sýna fram á það. Ástæðan fyrir því að sambandið víða hvar hefur að mestu horfið úr málinu gæti annaðhvort verið sú að hvar bætir engu við merkingu víða og hafi því þótt óþörf viðbót, eða merkingarmunur víða hvar og víðast hvar, sem alla tíð var margfalt algengara, hafi dofnað svo að fyrrnefnda sambandið varð óþarft og lognaðist út af.