Hittingur

Orðið hittingur er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Elsta dæmi um það á prenti er í Skólablaðinu 1921: „Oft er það að eins hittingur, ef menn frjetta slíkt.“ Í Tímanum 1941 segir: „Bæirnir eru því einangraðir of mjög frá öðrum og menn geta naumast komizt heiman eða heim nema af hittingi.“ Í Morgunblaðinu 1954 segir: „Það er næstum hittingur – segir hún – að við fáum kjól eða kápu við okkar hæfi.“ Í Fiskifréttum 1991 segir: „Þetta er mikill hittingur en við vorum heppnir að þessu sinni.“ Augljóst er af samhengi að hittingur merkir 'tilviljun' í þessum dæmum, og má tengja það við sambandið það hittist svo á sem merkir 'það er/var tilviljun'. En þessi merking er ekki í orðabókum og virðist ekki hafa verið algeng – líklega horfin úr málinu.

Orðið er líka notað í skyldri merkingu, 'tilviljun' eða 'heppni', í brids: „Hittingur er það kallað þegar spilarar þurfa að velja á milli tveggja jafngildra möguleika“ segir í Morgunblaðinu 2008. Þar snýst málið um að hitta á rétta möguleikann, vera hittinn – „Sumir eru getspakari en aðrir og Norðmaðurinn Geir Helgemo er sérlega hittinn“ heldur blaðið áfram. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun er í Vísi 1966: „Austur spilaði út tíguláttu, sem var greinilega „hittings“ útspil.“ Einnig var orðið stundum notað um fiskveiðar: „Í nótt lentum við í góðum hittingi“ segir í Morgunblaðinu 1978, „Minn félagsskapur og ég lentum aldrei í neinu skoti, hittingi eða hvað maður kallar það þegar fiskurinn bara tekur og tekur“ segir í Degi 2000.

En undanfarin 20 ár eða svo hefur orðið aðallega verið notað í nýrri merkingu – 'óformleg samkoma, það að hittast, spjalla o.s.frv.' eins og segir í Íslenskri orðabók; 'óhátíðleg samkoma vina eða fjölskyldu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er reyndar úr Fálkanum 1946: „Helena og ég hittumst æði oft, en eini tilgangurinn minn með þeim hittingum var sá að fá einhverjar fregnir af Wöndu.“ Þetta er þó einangrað dæmi og annars sjást ekki dæmi um þessa merkingu fyrr en eftir aldamót, fyrst á samfélagsmiðlum eins og vænta má: „Og ef það er hittingur á kvöldin komast þær sem eru að vinna“ á Bland.is 2002, „Tekin létt og óvænt æfing eftir góðan hitting á Símnet“ á Hugi.is 2002.

Dæmum fer svo ört fjölgandi á samfélagsmiðlum næstu ár en þróunin í formlegra máli er mun hægari. Stöku dæmi fara þó að sjást í prentmiðlum upp úr þessu – „og mátti m.a. sjá til fyrrum vinkvenna ungfrú Íslands sem voru með hitting“ segir í DV 2002, „Elfa, er einhver „hittingur“ núna“ segir í Morgunblaðinu 2002, „Þetta var ekki langur hittingur og tók fljótt af“ segir í DV 2004, „síðan er oftast hittingur á Vegamótum“ segir í Fréttablaðinu 2005. En sprenging virðist verða í notkun orðsins fyrir fimm árum eða svo. Í Risamálheildinni eru níu þúsund dæmi um orðið, þar af um 7.400 á samfélagsmiðlum. Þessi mikla notkun bendir til þess að um sé að ræða mjög gagnlegt orð sem bæti úr brýnni þörf – við höfum ekki annað orð fyrir þessa merkingu.

Vissulega væri stundum hægt að nota orðið fundur en hittingur er samt yfirleitt óformlegri og oft tilviljanakenndur fremur en fyrir fram ákveðinn (og tengist þannig merkingunni 'tilviljun' sem orðið hafði áður). Í Íslenskri orðabók er orðið hittingur þó merkt „slangur“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Það er líka stundum amast við því í málfarsumræðu á samfélagsmiðlum. En þetta er eðlileg orðmyndun af sögninni hitta og ýmis önnur dæmi um orð mynduð með viðskeytinu -ingur af sögnum með svipaðri stofngerð – brettingur af bretta, léttingur af létta, styttingur af stytta, þvættingur af þvætta o.fl. Mér finnst þess vegna einboðið að létta öllum hömlum af hittingi og telja þetta gott og gilt orð.