Fagn

Orðið fagn er bæði að finna í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók í merkingunni 'tilþrifamikið látbragð íþróttamanns sem fagnar góðum árangri í keppni, t.d. við að skora mark í knattspyrnu'. Þetta orð er a.m.k. aldarfjórðungs gamalt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1998: „Þetta „fagn“ framherjans var gagnrýnt af mörgum, m.a. dómara úr heimsmeistarakeppninni.“ Í ræðu á Alþingi 2001 var sagt: „En ég ítreka fögnuð minn og segi eins og í Vestmannaeyjum að mörg „fögn“ eru á bak við það að hv. þm. skuli þó vera opinn fyrir breytingunum.“ Í DV 2002 segir: „Það var mikið talað um það fyrir æfingu að ég skoraði aldrei og gæti því aldrei tekið þetta fagn.“ Í elstu dæmum eru oft hafðar gæsalappir um orðið.

Fáein dæmi má finna um fagn í blöðum og á samfélagsmiðlum frá fyrsta áratug þessarar aldar, en eftir 2010 verður það mjög algengt og í Risamálheildinni eru dæmin um það a.m.k. hátt á annað þúsund. Einhverjum gæti fundist þetta óþarft orð vegna þess að málið á vissulega önnur nafnorð mynduð af fagna orðin fagnaður 'gleðskapur, veisla' og fögnuður 'það að fagna, mikil gleði' eru leidd af þessari sögn með viðskeytinu -uður. En fagn er alveg sérstök tegund af gleðskap og þess vegna ekkert óeðlilegt að til verði sérstakt orð til að tákna þá merkingu. Orðið er vitanlega myndað af sögninni fagna með því að sleppa nafnháttarendingunni -a. Slík orðmyndun er eðlileg og algeng í málinu eins og hér hefur nýlega verið skrifað um.

Í Íslenskri orðabók er fagn sagt „óformlegt“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óstaðfest nýyrði“. Það er í sjálfu sér eðlilegt – orðið er nýlegt og það tekur tíma fyrir okkur að venjast eða sætta okkur við ný orð, auk þess sem þetta orð er komið úr íþróttamáli sem oft þykir fremur óformlegt og ekki fínt. Sumum virðist líka finnast orðmyndun af þessu tagi tilheyra óformlegu máli og vissulega er hún algeng þar þótt ýmis orð sem svona eru mynduð séu fullgild í málinu og hafi verið það lengi. En út frá þessu má velta því fyrir sér hvað þurfi til að orð fái fulla viðurkenningu – séu höfð án gæsalappa í rituðu máli og tekin athugasemdalaust í orðabækur. Það er erfitt að segja, en mér finnst allavega fagn hafa unnið sér inn viðurkenningu.