„Bjargar lögfræðin íslenskunni?“
Í gær fór ég á fróðlegt málþing á vegum Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Yfirskrift þingsins var „Bjargar lögfræðin íslenskunni?“ og frummælendur voru þrír lögfræðingar úr ólíkum áttum. Það var mikill samhljómur í máli þeirra um að lagasetning og eftirfylgni stjórnvalda gæti komið íslenskunni að verulegu gagni. Ég er sammála því mati og hef reyndar skrifað um dugleysi stjórnvalda við að framfylgja þeim lögum sem þó eru til og varða íslenska tungu, svo sem ákvæðum um málstefnu sveitarfélaga í Sveitarstjórnarlögum, ákvæðum um fyrirtækjaheiti í Lögum um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð og ákvæðum um auglýsingar á íslensku í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Á málþinginu var einnig talað um Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmáls frá 2011. Þessi lög voru ágæt á sínum tíma og eru góð svo langt sem þau ná – en þau ná alltof skammt og hafa of þröngt gildissvið. Í fyrstu grein þeirra segir: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“ og í annarri grein segir: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.“ Ég veit reyndar ekki til þess að þessi sérlög hafi verið sett en þar kann vanþekkingu minni að vera um að kenna.
Það er stór galli á lögunum að þau taka eingöngu til opinberra aðila. Í 8. grein segir: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu“ og í 4. grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Í lögunum er ekki stakt orð um skyldur einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka til að nota íslensku, hvað þá ákvæði um aðgerðir ef svo er ekki gert. Í öðrum lögum eru ákvæði um íslensk nöfn fyrirtækja og að auglýsingar sem eiga að höfða til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku en þeim lögum er slælega framfylgt eins og áður segir.
Það er kominn tími til að uppfæra Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og mér finnst mikilvægt að við þá uppfærslu verði gildissvið laganna víkkað þannig að þau taki einnig til einkaaðila – fyrirtækja og félagasamtaka. Það er eðlilegt að þeim verði gert skylt að nota íslensku, t.d. í auglýsingum og kynningarefni. Það kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að enska – eða annað erlent tungumál – verði einnig notað, en frumskilyrði á að vera að íslenska sé alls staðar í öndvegi. Það þarf einnig að gera atvinnurekendum, bæði opinberum aðilum og einkaaðilum, skylt að gera erlendu starfsfólki kleift að stunda íslenskunám með vinnu. Í lögunum verða að vera ákvæði um viðurlög ef út af er brugðið, og þeim þarf að beita.
Öðru máli gegnir um ákvæði sem varða mál og málnotkun einstaklinga. Fyrir utan Lög um mannanöfn sem eru sér á báti (og ættu að falla brott að mínu mati) eru slík ákvæði mér vitanlega aðeins í Lögum um ríkisborgararétt þar sem í upptalningu skilyrða fyrir ríkisborgararétti segir: „Umsækjandi hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem ráðherra setur í reglugerð.“ Á málþinginu var nefnt að þetta próf væri létt, jafnvel of létt. Um það get ég ekki dæmt en vel má vera að ástæða sé til að þyngja prófið. Hins vegar sækir ekki nema lítill hluti þeirra útlendinga sem hér búa um íslenskan ríkisborgararétt þannig að auknar kröfur til þeirra hefðu lítil almenn áhrif á íslenskukunnáttu innflytjenda, heldur hefðu fyrst og fremst táknrænt gildi.
En að öðru leyti finnst mér ekki koma til álita að setja nein ákvæði í lög um mál, málnotkun og málkunnáttu einstaklinga. Það væri að mínu mati alvarleg takmörkun á tjáningarfrelsi fólks, byði heim margvíslegri misbeitingu og mismunun og ýtti undir þjóðernishroka. Það er ekki hægt að halda lífi í íslenskunni með lögum – hún lifir ekki nema við, notendur hennar, viljum að hún lifi. Það er hægt – og þarf – að styrkja íslenskuna á ýmsan hátt, með kennslu í íslensku sem öðru máli, með gerð afþreyingar- og fræðsluefnis á íslensku, o.s.frv. En hinn margþvældi frasi „vilji er allt sem þarf“ á ekki við hér (og raunar sjaldnast) – það þarf líka aðgerðir, fyrst og fremst vitundarvakningu um að íslenskan skipti máli og það þurfi að hlúa að henni.