Búsetuúrræði – og lokuð búsetuúrræði

Nafnorðið úrræði er gamalt í málinu – kemur fyrir í fornu máli bæði í myndinni órræði og órráð. Yfirleitt vísar það til lausnar einhvers vanda, útleiðar – 'möguleiki til úrlausnar, kostur' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Oft er þó frekar verið að velja milli vondra kosta en góðra eins og tíðni samsetningarinnar neyðarúrræði gefur vísbendingu um. Fyrir rúmum 30 árum var farið að nota samsetninguna búsetuúrræði – elsta dæmi sem ég finn um það orð er í Morgunblaðinu 1992: „Nú eru miklir fjármunir settir í uppbyggingu á endurhæfingarþjónustu, sem gæti verið á Kópavogshæli með litlum tilkostnaði, og þá fjármuni, sem við það spöruðust, mætti nota til að byggja upp sambýli og kosta önnur búsetuúrræði fyrir íbúa hælisins.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er búsetuúrræði skýrt 'úrræði til að útvega ákveðnum hópi húsnæði' og sú skýring gæti átt við þetta dæmi og tvö þau næstu sem einnig eru úr  Morgunblaðinu sama ár: „Stórar stofnanir eru að leggjast af og lítil heimili og íbúðir taka við sem búsetuúrræði“ og „Engin búsetuúrræði eru til fyrir þennan hóp“. En síðla ársins 1992 segir í Degi: „Verndað búsetuúrræði mundi minnka þörf fólksins fyrir sjúkrahússvist.“ Hér er ljóst að orðið vísar beinlínis til ákveðins staðar eða húsnæðis fremur en til möguleika eða kosts og þannig hefur orðið oftast verið notað síðan eins og t.d. er skýrt í Sveitarstjórnarmálum 1999: „Það þýðir m.a. að biðlisti eftir búsetuúrræðum muni tvöfaldast á næstu fimm árum.“

Orðið búsetuúrræði merkir því í raun yfirleitt 'heimili', eiginlega 'heimili fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu' – fatlað, aldrað, háð fíkniefnum o.fl. Þetta sést á dæmum eins og „Hann fluttist svo á Njálsgötu 74 sem er búsetuúrræði á vegum Reykjavíkurborgar“ í Morgunblaðinu 2020 og „Stundum nægja upplýsingar og fræðsla um málaflokkinn til að róa þá sem bera kvíðboga fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt“ í Fréttablaðinu sama ár. Oft er þarna samt um að ræða húsnæði eða aðstöðu sem stjórnvöld – en þetta er yfirleitt á vegum þeirra – virðast veigra sér við að kalla heimili vegna þess að þar skortir oft ýmislegt sem einkennir dæmigerð heimili svo sem einkarými, auk þess sem mörg búsetuúrræði eru í bágbornu ástandi.

Nýlega hefur svo bæst við sambandið lokað búsetuúrræði. Það virðist fyrst hafa komið fram í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi vorið 2022: „Annars staðar á Norðurlöndum eru einnig rekin svokölluð lokuð búsetuúrræði (e. detention center) sem ætluð eru til vistunar fyrir ríkisborgara þriðja ríkis sem eru í ólögmætri dvöl […].“ Í Merriam-Webster orðabókinni er detention center vissulega skýrt 'a place where people who have entered a country illegally are kept for a period of time' eða 'staður þar sem fólk sem hefur komið ólöglega inn í land er vistað um tíma'. En enska orðið detention vísar ótvírætt til frelsisskerðingar – eðlilegasta þýðing þess á íslensku er varðhald.

Það er því mjög sérkennilegt að þýða detention center sem lokað búsetuúrræði sem skilgreint er sem „Úrræði um lokaða búsetu útlendings sem sætir frelsisskerðingu […]“ í nýju frumvarpi  dómsmálaráðherra sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda – lokuð búseta er svo skilgreind sem „Lokuð búseta útlendings sem sætir frelsisskerðingu […]“. Vissulega á að vista þarna fólk sem er í viðkvæmri stöðu eins og í öðrum búsetuúrræðum en þetta er þó vitanlega ekki ʻheimiliʼ í neinum skilningi eins og sést m.a. á því að mörgum greinum frumvarpsins svipar til ákvæða um fangelsi í Lögum um fullnustu refsinga  – t.d. eru ákvæði um heimsóknir, agabrot, líkamsleit, heimild til valdbeitingar, vistun í öryggisklefa o.fl., og meðal starfsfólks eru fangaverðir.

Hvað sem segja má um notkun orðsins búsetuúrræði hingað til er þetta algerlega á skjön við hana. „Lokuð búseta“ þar sem fangaverðir gæta fólks er auðvitað ekkert annað en fangelsi. Það er alþekkt að í viðkvæmum ágreiningsmálum leitast stjórnvöld oft við að föndra við tungumálið til að slá ryki í augu almennings og breiða yfir það um hvað málið snýst í raun. Um þetta höfum við mörg nýleg dæmi, íslensk og erlend. Fyrir rúmu ári tók þáverandi dómsmálaráðherra upp orðið  rafvarnarvopn yfir það sem lengi hafði heitið rafbyssa á íslensku, og í frumvarpi  til laga um breytingu á lögreglulögum sem lagt var fram á Alþingi í fyrra og aftur  núna er orðið afbrotavarnir notað um það sem áður  var kallað forvirkar rannsóknarheimildir.

En lokað búsetuúrræði er samt grófasta dæmið – eins og það orðasamband er notað í áðurnefndu frumvarpi gæti það eins átt við um fangelsin á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. Fólk getur vitskuld haft mismunandi skoðanir á efni frumvarpsins en þegar stjórnvöld telja sig þurfa að hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum er það yfirleitt til marks um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Stjórnvöld verða að hafa kjark til að gera það sem þau telja nauðsynlegt og kalla það sínum réttu nöfnum en reyna ekki að fela það með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða – það er merki um hugleysi. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.