Hann er eitt af mönnunum
Í gær spannst hér áhugaverð umræða út frá innleggi Hjálmars Gíslasonar sem hafði tekið eftir því að sonur hans notaði oft sambandið eitt af í hvorugkyni í vísun til kynjablandaðs hóps, jafnvel þótt nafnorðið sem notað væri um hópinn væri í karlkyni – eitt af jútjúberunum, eitt af gaurunum o.s.frv. Fleiri þátttakendur í umræðunni könnuðust við sambærileg dæmi frá sínum börnum en Haukur Þorgeirsson benti á að hugsanlega væri ekki um virkt hvorugkyn að ræða í slíkum dæmum heldur væri sambandið eitt af skynjað sem heild, án tengsla við töluorðið / fornafnið einn. Þetta er erfitt að rannsaka vegna þess að heimildir um mál barna og unglinga eru af skornum skammti. Helst er þó að leita í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar.
Þar má finna mikinn fjölda dæma um að eitt af sé notað í vísun til karlkyns- eða kvenkynsorðs í stað einn af eða ein af. Á Bland.is 2004 segir: „hann vann í bingói um jólin og eitt af vinningunum sem hann fékk var hákarl.“ Á Bland.is 2004 segir: „svimi er eitt af aukaverkununum sem ég finn á doktor.is.“ Á Bland.is 2005 segir: „Hún er eitt af leyndardómum minnar fyrrverandi tengdamóður.“ Á Bland.is 2005 segir: „nú er mín komin í 7 ára bekk og þar er kristinfræði eitt af námsgreinunum.“ Á Bland.is 2007 segir: „og er það eitt af uppáhaldsmatnum hennar.“ Á Hugi.is 2010 segir: „Þú ert eitt af mönnunum sem kom með ráð við því sem ég bað um.“ Á twitter 2016 segir: „Er það eitt af kennslugreinum grunnskólans?“
Ef eitt af er orðið frosið samband í máli sumra mætti búast við að finna það í þágufalli og eignarfalli þar sem annars væri von á einu af eða eins af, eins og Haukur benti á. Slík dæmi má finna – á twitter 2012 segir: „Þarf eitt RT frá eitt af stjörnum íslands!“ Á Bland.is 2013 segir: „hann var svo stuttur hjá eitt af börnunum mínum að ég náði varla að halda á barninu mínu.“ Á Bland.is 2011 segir: „Er með útrunnið vegabréf en er að fara til eitt af norðurlöndunum.“ Á Bland.is 2014 segir: „Ég þekki nú til eitt af þessum börnum.“ Á Hugi.is 2009 segir: „þekkti ekki neinn þar til eitt af gömlu félugum mínum kenndi mér að reykja.“ Á twitter 2016 segir: „Þú þarft eiginlega að vera pínu skrítinn að þekkja ekki til eitt af mestu tröllum austfjarða.“
Það má líka finna nokkuð af dæmum um eitt af með sögn í fleirtölu og í vísun til nafnorðs í karlkyni eða kvenkyni eintölu eða fleirtölu. Á Bland.is 2011 segir: „Úff þetta eru eitt af erfiðustu sjúklingunum held ég.“ Á Hugi.is 2002 segir: „Friends eru eitt af uppáhalds þáttunum mínum.“ Á Hugi.is 2003 segir: „þessar rímur eru eitt af fyrstu rímunum sem ég er búinn að semja.“ Á Hugi.is 2004 segir: „Það eru eitt af bestu gíturum sem ég hef prófað.“ Á Bland.is 2013 segir: „Fimleikar eru eitt af dýrustu íþróttunum því miður.“ Á Bland.is 2013 segir: „Þetta eru eitt af bestu barnahundum sem eru til.““ Á twitter 2021 segir: „Sjallar eru eitt af meginástæðum af hverju ungt fólk getur ekki keypt sína fyrstu eign lengur.“
Einnig má finna fáein dæmi um að sambandið sé skrifað í einu lagi, eittaf – „er þetta ekki bara eittaf sigrum okkar sem alheimur?“ segir t.d. á twitter 2016. En þótt sambandið sé oftast skrifað eitt af er ljóst að í öllum framangreindum dæmum hagar það sér eins og ein óbeygjanleg heild – beygist ekki í kyni, tölu eða falli. Dæmin eru svo mörg að útilokað er að afgreiða þau sem einhvers konar fljótfærnisvillu, heldur hljóta þau að sýna málbreytingu í gangi – og sú breyting á sér a.m.k. tuttugu ára sögu. Þar sem svo mörg og svo gömul dæmi koma fram á samfélagsmiðlum þar sem höfundar eru væntanlega a.m.k. komnir á unglingsár er trúlegt að þessi breyting sé orðin mjög útbreidd í máli barna, og umræðan hér í gær bendir líka til þess.
Það er svo sem ekkert einsdæmi að sambönd sem innihalda beygjanleg orð „frjósi“ á þennan hátt – hætti að taka mið af öðrum orðum í setningunni en komi alltaf fram í sömu mynd. Eitt þekktasta dæmið er verða var við þar sem var er lýsingarorð og sambandið ætti því að vera verða vör við í kvenkyni en stundum bregður þó út af því eins og Gísli Jónsson skrifaði t.d. um í Morgunblaðinu 1992: „Slík notkun þekkist nú vart. Fólk virðist aðeins þekkja orðalagið „var við“.“ Annað hugsanlegt dæmi er verða valdur að sem ég skrifaði um nýlega en það má þó einnig skýra á annan hátt. Mér sýnist ljóst að eitt af stefni í sömu átt en verið alveg róleg – þetta á sennilega ekkert skylt við kynhlutlaust mál þótt það gæti reyndar lagt sitt af mörkum til þess.