Posted on Færðu inn athugasemd

Að liggja í lausu lofti

Í innleggi hér í morgun, sem ég eyddi vegna neikvæðs orðalags, var vakin athygli á fyrirsögninni „Staðarhald á Hólum liggur í lausu lofti“ á mbl.is í dag og spurt hvort þetta væri „kannski bara eðlileg þróun málsins“. Þótt það hafi ekki komið fram geri ég ráð fyrir að fyrirspyrjandi telji að í stað sagnarinnar liggja ætti fremur að nota svífa eða vera – eins og reyndar er gert í upphafi fréttarinnar: „Staðarhald Hólastaðar er í lausu lofti.“ Vissulega er það rétt að sögnin vera er venjulega notuð í þessu sambandi sem merkir þarna 'hafa enga festu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Íslenskri orðabók er sambandið svífa í lausu lofti skýrt 'vantar undirstöðu, er uppi í skýjunum'. Framtíð staðarhalds á Hólum er sem sé í algerri óvissu.

Nokkur dæmi um liggja í lausu lofti í þessari merkingu má finna í Alþingistíðindum, þau elstu meira en hundrað ára gömul. Það elsta er frá 1915, í ræðu Bjarna Jónssonar frá Vogi sem þótti enginn bögubósi: „Vona jeg, að þingmaðurinn breyti nú skoðun og greiði tillögum mínum atkvæði, þegar hann sjer, hversu spádómar hans liggja í lausu lofti.“ Annað dæmi er í ræðu Einars Jónssonar 1918: „En jeg vil hjer fara milliveginn, að alt sje ekki látið liggja í lausu lofti, en ekki heldur alt lögboðið, sem kemur við atvinnuþörfinni og vinnuveitandanum í bága.“ Þriðja dæmið er í ræðu Jakobs Möller 1927: „Ef þetta er ekki sönnun þess, að fyrirætlanir fjelagsins liggi í lausu lofti, þá veit jeg ekki, hvaða sannanir menn vilja fá.“

Á tímarit.is er á þriðja tug dæma um liggja í lausu lofti í þessari merkingu, það elsta í Sjómannablaðinu Víkingi 1948: „Þegar stjórnarsamvinnan rofnaði, var ekki búið að marka nægilega örugga stefnu í afurðasölumálunum. Þau lágu í lausu lofti.“ Í Vísi 1959 segir: „Þetta væru þó meira getgátur er lægju í lausu lofti.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Skýringin liggur í lausu lofti og áhorfandinn fær varla höndlað hana.“ Í Tímanum 1969 segir: „En það hlýtur alltaf að vera sanngirnismál, að ekki sé látið liggja í lausu lofti hverra breytinga sé von vegna framkvæmdanna.“ Ýmis nýleg dæmi eru líka til – í Fréttablaðinu 2023 segir: „Við breytum ekki fortíðinni en það er algjör óþarfi að láta málið liggja í lausu lofti lengur.“

Sambandið liggja í lausu lofti er vissulega fremur sjaldgæft – í Risamálheildinni eru rúm 800 dæmi um sambandið vera í lausu lofti en aðeins um 50 dæmi um liggja í lausu lofti. Hins vegar er sambandið liggja í loftinu í merkingunni 'eitthvað er yfirvofandi, líklegt er að eitthvað gerist' mjög algengt. Merkingin er vissulega ekki sú sama og í vera í lausu lofti en þó er ekki ýkja langt á milli – í báðum samböndum er um að ræða óvissu. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um þetta finnst mér því ekki ósennilegt að sambandið liggja í lausu lofti hafi orðið fyrir áhrifum frá liggja í loftinu. Það er auðvitað smekksatriði hvað fólki finnst um liggja í lausu lofti en þar eð elstu dæmin um það eru meira en hundrað ára gömul er a.m.k. ekki um að ræða splunkunýja „þróun“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.