Skotsilfur

Nýlega var hér spurt hvað fyrri liðurinn skot- í orðinu skotsilfur væri. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skotsilfur skýrt 'lausir peningar, peningar til að eyða, reiðufé' og í Íslenskri orðabók er skýringin 'vasapeningar, eyðslueyrir, reiðufé' en þar kemur líka fram að skot eitt og sér geti m.a. merkt 'framlag eins einstaks til samskota'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skotsilfur skýrt 'Lommepenge; Rejsepenge', þ.e. 'vasapeningar; ferðafé' og undir skot sem er skýrt á sama hátt og í Íslenskri orðabók er vísað á dæmi úr Riti þess íslenzka Lærdómslistafélags frá 1781: „skot (og skot-penningr) heitir, þá er hverr gefr sinn hluta til einhvers.“ Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að skot geti m.a. merkt ‚framlag (í peningum)‘.

Í fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over Det Gamle Norske Sprog, er vísað úr skotsilfur á skotpeningur sem hefur tvær merkingar: Annars vegar 'Penge som tilfalder en', þ.e. 'fé sem fellur einhverjum í hlut' og hins vegar 'Tærepenge, Penge som man erlægger for sig i Betaling for sin Underholdning, Beværtning', þ.e. 'dagpeningar, fé sem greitt er fyrir uppihald'. Við seinni merkinguna er vísað til samanburðar í écot á frönsku og scot, scotum í miðaldalatínu. Í seinni tíð (a.m.k. frá því á 19. öld) virðist fyrri merkingin ekki koma fyrir í skotsilfur þótt hún haldist í orðinu samskotskotsilfur er eingöngu notað í merkingunni 'eyðslueyrir' og áður fyrr langoftast um fé til að greiða útgjöld á ferðalagi – önnur en beinan ferðakostnað.

Þannig segir t.d. í Ísafold 1875: „Prinsinn af Wales hafði 1 milj. kr. eða freklega það í farareyri í Indlandsför sína, og undir það annað eins í skotsilfur.“ Í Heimskringlu 1886 segir: „kom þeim ásamt um, að verðið skyldi vera $67 (sextíu og sjö dollars!), eða með öðrum orðum farbrjef til Liverpool, sem kostar $55 og um 12 doll. í skotsilfri, til þess að svalla í leiðinni.“ Hér er gerður skýr munur á beinum ferðakostnaði og öðrum útgjöldum í ferðinni – skotsilfur er eyðslufé, notað til að greiða ýmislegt sem er ekki endilega allt bráðnauðsynlegt. En þetta gildir þó ekki eingöngu um ferðalög – í Skírni 1886 segir t.d.: „Drottning keisarans hefir í skotsilfur 600,000 rúflna, og heldur því fje, ef hún verður ekkja auk peninga til viðurværis og hirðkostnaðar.“