Að drífa sig, flýta sér – og letsa

Í gær var hér spurt hvort ekki væri lengur gerður greinarmunur á orðasamböndunum drífa sig og flýta sér. Ég sagðist telja að þessi munur væri gerður, en vissulega er oft hægt að nota bæði samböndin í sömu merkingu. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er drífa sig skýrt 'anstrænge sig, være dygtig og energisk', þ.e. 'leggja sig fram, vera iðinn og kappsamur'. Í Íslenskri orðabók er sambandið drífa sig skýrt annars vegar 'taka á sig rögg og koma sér af stað (hefjast handa)' og hins vegar 'herða sig (við verk)'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin drífa skýrð ‚sýna dugnað, framtakssemi, hraða‘ og undir henni er gefið sambandið drífa sig <af stað> með dæmunum drífið ykkur krakkar, við erum að fara; hann dreif sig á fætur klukkan 6.

Þarna eru sem sé tveir merkingarþættir – annars vegar 'dugnaður, kappsemi' og hins vegar 'hraði, viðbragð'. Sögnin flýta er skýrð ‚hraða (e-u), láta (e-ð) gerast hraðar, fljótar‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók þannig að þar er skörun við aðra merkinguna í drífa, og iðulega gætu báðar sagnirnar átt við. Ef ég segi við þurfum að drífa okkur, við erum að verða of sein getur það annars vegar merkt 'nú þurfum við að sýna dugnað (við að koma okkur af stað)' og hins vegar 'nú þurfum við að vera fljót' – eins væri hægt að nota flýta okkur. Sama máli gegnir hugsanlega ef við erum á leiðinni eitthvað og ég segi við förum alltof hægt, nú þurfum við virkilega að drífa okkur – en ég er þó ekki viss um að öllum finnist eðlilegt að nota drífa sig við þær aðstæður.

Ástæðan fyrir því að þessi setning er e.t.v. vafasöm er sú að fyrir mörgum a.m.k. felst einhvers konar upphaf í drífa sig sem ekki er í flýta sér. Ég get sagt þegar ég mætti honum var hann alltaf að flýta sér í ræktina en mér finnst skrítið að segja þegar ég mætti honum var hann alltaf að drífa sig í ræktina – af því að þar er hann á leiðinni en ekki að hefja ferðina. En hugsanlega er þetta að breytast – a.m.k. finn ég slæðing af setningum með sambandinu alltaf að drífa sig þar sem ekki er augljóst að um eitthvert upphaf sé að ræða, eins og í Stundinni 2018: „Við gerum eitt í einu og sýnum þolinmæði fyrir líðandi stund í stað þess að vera alltaf að drífa okkur“ og „Fólkið í minni fjölskyldu er alltaf að drífa sig svo mikið“ á Bland.is 2010.

Í þessum dæmum væri eins hægt – og kannski eðlilegra – að nota flýta sér, en vissulega er hugsanlegt að lesa einhvers konar upphafsmerkingu úr þeim. Það virðist samt ekki ólíklegt að munurinn á merkingu drífa sig og flýta sér hafi dofnað undanfarið, en því fer samt fjarri að alltaf sé hægt að nota drífa sig í sömu merkingu og flýta sér. Mér finnst t.d. óeðlilegt eða útilokað að nota drífa sig í setningum eins og *hún spurði hvort þetta væri rétt og ég dreif mig að svara játandi, eða *það var beðið eftir mér svo að ég dreif mig eins og ég gat, eða *ég hef ekki drifið mig svona mikið í mörg ár, eða *við svona aðstæður er mikilvægt að drífa sig hægt. En ég skal samt ekki útiloka að einhverjum finnist einhverjar þessara setninga góðar og gildar.

Í tengslum við þetta má nefna nýlega sögn sem ungt fólk notar stundum í merkingunni ‚drífa sig, fara‘ – sögnina letsa. Dæmi um hana má m.a. finna á twitter 2016: „Núna þurfum við því miður að letsa“, og 2020: „Ég er að fara að henda mér í lopann og letsa“. En hugsanlega er letsa þegar úrelt eins og segir á twitter 2021: „Letsa er svona fjögurra ára gamalt og öööörugglega að detta út - held að núna sé LESSSSGO málið“ og „Þá er pottþétt löngu orðið ýkt halló að letsa“. Þetta er komið af let’s go á ensku – ensk sambræðsla sagnar og fornafns (let us) verður að íslenskri sögn sem fær merkingu ensku aðalsagnarinnar (go) – sem fellur brott. Kannski verður letsa ekki langlíf sögn en mér finnst þetta býsna skemmtileg orðmyndun.