Íslenska er ekki erfiðasta tungumál í heimi

Á mbl.is var í gær áhugavert viðtal við skoskan mann sem hefur búið hér síðan 2016 – var að ljúka BA-prófi frá Háskólanum á Bifröst og hefur náð mjög góðu valdi á íslensku. Það er margt gott í þessu viðtali sem ástæða er til að taka undir, m.a. áherslan á mikilvægi þess að bjóða upp á fleiri hentug og ódýr íslenskunámskeið: „Barry segir mikilvægast að gefast ekki upp á íslenskunni. Hann bætir þó við að það vanti betri úrræði fyrir þá sem vilji læra íslensku og því verði stjórnvöld að bæta úr. Hann telur þau íslenskunámskeið sem eru í boði vera oft á óhentugum tímum og á stöðum sem geti verið erfitt að komast á. Einnig eru þessi námskeið dýr og fólk veit ekki að það getur fengið endurgreitt í gegnum stéttarfélagið.“

Barry leggur áherslu á mikilvægi þess að læra íslensku til að komast inn í samfélagið, en bendir á, eins og hér hefur oft verið gert, að Íslendingar þurfi að huga að málhegðun sinni við fólk sem er að læra íslensku: „Mér finnst líka að Íslendingar þurfi að vera aðeins betri í að skipta ekki yfir í ensku þegar þeir lenda í einstaklingum sem eiga íslensku ekki að móðurmáli. Þetta snýst um að finna gott jafnvægi.“ En þarna kemur líka fram algengur og lífseigur, en jafnframt mjög alvarlegur, misskilningur sem mikilvægt er að leiðrétta – um það hversu erfitt tungumál íslenska sé. „Þetta er líklega eitt erfiðasta tungumál í heimi til að læra en fyrir mig var það hluti af skemmtuninni. Að tala tungumál  sem kannski hálf milljón manns á jörðinni talar.“

Íslenska er ekki eitt erfiðasta tungumál í heimi. Því fer fjarri. Það er þjóðsaga sem einhvern veginn hefur komist á kreik og við virðumst vilja viðhalda – það er eins og við séum stolt af því, að það sé okkur metnaðarmál að íslenska sé erfið. Auðvitað er hún erfið ef stefnt er að því að kunna hana til hlítar (hvað svo sem það merkir) – en það gildir um öll tungumál. Það sem viðheldur þjóðsögunni er ekki síst óþol okkar gagnvart „ófullkominni“ íslensku sem kemur m.a. fram í því hversu fljót við erum að skipta í ensku. Við þurfum að slaka á kröfunum um kórrétta íslensku og kveða þessa þjóðsögu niður því að hætt er við að hún hræði útlendinga og fæli frá íslenskunámi. Íslenska með erlendum hreim og beygingarvillum er líka íslenska.