Reimdu á þig skóna!

Í dag var hér spurt hvers vegna væri sagt geturðu reim skóna? en ekki geturðu reimt skóna?, þrátt fyrir að sagt sé geturðu reynt að gera þetta. Sagnirnar reyna og reima eru hljóðfræðilega mjög líkar – eini munurinn felst í nefhljóðinu, n eða m – en beygjast samt á mismunandi hátt. Báðar hafa veika beygingu, þ.e. fá sérstaka þátíðarendingu, en sú fyrrnefnda er reyndi í þátíð og (hef) reynt í lýsingarhætti þátíðar, en sú síðarnefnda er reimaði í þátíð og (hef) reimað í lýsingarhætti þátíðar. Langflestar sagnir í málinu beygjast eins og reima, fá endinguna -aði í þátíð, og allar nýjar sagnir sem bætast í málið, hvort sem um er að ræða nýyrði eða tökuorð, beygjast á þann hátt – sagnir eins og berskjalda, gúgla, deita, instagramma, fótósjoppa o.s.frv.

Flokkur sagna sem beygjast eins og reyna, fá -di í þátíð, er aftur á móti lokaður – í hann bætast ekki nýjar sagnir. Þess vegna virðist fyrir fram ólíklegt að reima leiti úr sínum stóra og opna flokki yfir í hinn tiltölulega litla og lokaða flokk þar sem reyna er fyrir. En það gerist nú samt stöku sinnum. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1999 vakti Gísli Jónsson athygli á því „að krakkar segja nú stundum „reimt“, en ekki reimað, um skóna sína.“ Hann benti á að reima hefði „lengi beygst eftir fyrsta flokki veikra sagna: reima – reimaði – reimað, en sem fyrr sagði, taka nú börn að færa hana yfir í þriðja flokk og beygja reima – reimdi – reimt.“ En málvöndunarmaðurinn Gísli tók þessu létt og bætti við: „Ekki virðist mér mikill skaði að því.“

Örfá dæmi um þetta má finna á tímarit.is, það elsta í Vísi 1965: „Tjöldin voru rammlega reimd saman og jafnvel sáum við hengilás fyrir einu.“ Í Vísi 1978 segir: „Tölur smella, rennilásar renna, skór reimdir og svo framvegis.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „Ég var með eina manneskju sem reimdi skóna mína.“ Um 90 dæmi eru um þessa beygingu í Risamálheildinni, þar af um 80 af samfélagsmiðlum. Á Bland.is 2003 segir: „Þeir eru reimdir á hliðinni.“ Á Málefnin.com 2008 segir: „Kenndi mér að gera eina slaufu vegna þess að það var einfaldara og ég reimdi skóna lengi þannig.“ Stundum velkist fólk greinilega í vafa – á Bland.is 2007 segir: „Ég var að kaupa mér æðislegan kjól nema að hann er reimdur … reimaður eða vott ever aftur fyrir háls.“

Ástæðan fyrir því að reima hefur tilhneigingu til að verða reimdi í þátíð, þrátt fyrir að þátíðarendingin -di sé margfalt sjaldgæfari en -aði, er væntanlega áhrif frá sögnum með sömu stofngerð sem flestar fá -di í þátíð – dreyma, geyma, gleyma, streyma og teyma. Þetta eru allt algengar sagnir en fyrir utan reima er sveima eina algenga sögnin með þessa stofngerð sem fær -aði í þátíð. Vissulega eru fyrrnefndu sagnirnar skrifaðar með ey en þær síðarnefndu með ei en sá munur kemur ekki fram í framburði. Ég tek undir það með Gísla Jónssyni að lítill skaði væri að því þótt reima yrði reimdi í þátíð. Jafnvel mætti halda því fram að sú breyting væri æskileg vegna þess að hún styrkti hinn tiltölulega fáliðaða flokk sagna sem fær þátíðarendinguna -di.