Getur lofthæð verið himinhá?

Ég rakst á fyrirsögnina „Óttar lögmaður keypti lúxusíbúð með himinhárri lofthæð“ á mbl.is. Ég er vanur að tala um mikla lofthæð fremur en háa en við snögga leit fann ég töluvert af dæmum um háa lofthæð á tímarit.is, það elsta í Tímanum 1931: „Síðar munu hafa borizt tilmæli í einhverri mynd frá því firma, sem smíðar tækin, um hærri lofthæð í vélasalnum.“ Örfá dæmi eru frá næstu áratugum en undir aldamótin varð þetta orðalag algengt, einkum í fasteignaauglýsingum – og stundum er einnig talað um lága lofthæð þótt það sé miklu sjaldgæfara. Samt sem áður er og hefur alltaf verið margfalt algengara að tala um mikla og litla lofthæð. En er eitthvað óeðlilegt við að tala um háa og lága lofthæð frekar en mikla og litla?

Í þessu sambandi má minna á umræðu um lýsingarorð með nafnorðinu gæði. Mörgum finnst óeðlilegt að tala um góð eða léleg gæði þar eð gæði sé komið af lýsingarorðinu góður og merkingin 'góður' því innifalin í nafnorðinu. Á sama hátt væri hægt að halda því fram að óeðlilegt sé að tala um háa eða lága lofthæð þar sem hæð er komið af lýsingarorðinu hár og merkingin 'hár' því innifalin í lofthæð. En þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Við hikum nefnilega ekkert við að tala um háa og lága upphæð og háa og lága fjárhæð, þrátt fyrir að -hæð í þeim orðum sé líka komið af hár, og við tölum líka um háa og lága hæð í landslagi. Í þessum tilvikum virðist það ekki trufla okkur að merkingin 'hár' sé innifalin – eða er hún það?

Hér er mikilvægt að átta sig á því að orðið hæð hefur í raun tvær merkingar. Annars vegar er merkingin 'spönn', þ.e. 'munur á hæsta og lægsta gildi sem stærð eða fall getur tekið' eins og spönn er skilgreint í Tölvuorðasafni, en hins vegar vísar það til tiltekins punkts eða magns. Í lofthæð er um fyrrnefndu merkinguna að ræða – þar er vísað til fjarlægðarinnar (spannarinnar) milli gólfs og lofts. Í orðum eins og fjárhæð og upphæð – og hæð – er aftur á móti um síðarnefndu merkinguna að ræða – þar er vísað í ákveðinn punkt en ekki í neina spönn. Með slíkum orðum er hægt – og venjulegt – að nota lýsingarorð eins og hár og lágur, þótt mikill og lítill gangi vissulega líka. En hár og lágur eru hins vegar óeðlileg þegar um spönn er að ræða.

Samt sem áður er nokkuð algengt að tala um háa og lága lofthæð eins og áður segir – hvernig stendur á því? Ég ímynda mér að ástæðan hljóti að vera sú að skilningur á orðinu lofthæð hafi breyst, a.m.k. í máli sumra – í stað þess að fjögurra metra lofthæð sé skilið sem 'spönnin milli gólfs og lofts er fjórir metrar' sé það skilið sem 'loftið er í fjögurra metra hæð'. Ég veit að þetta virðist kannski ekki vera skýr munur, og það er erfitt að orða þennan mun á skiljanlegan hátt, en þetta snýst sem sé um það hvort við horfum á fjarlægðina milli gólfs og lofts eða á loftið eitt og sér. Í síðarnefnda tilvikinu er orðið lofthæð komið í hóp með fjárhæð, upphæð og hæð í landslagi og þar með verður eðlilegt að nota sömu ákvæðisorð og tala um háa og lága lofthæð.

Það er auðvitað fjarri því að vera einsdæmi að skilningur fólks á orðum breytist og það hafi áhrif á það hvaða ákvæðisorð eru notuð með þeim. Hér má nefna að á 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar virðist hafa verið mun algengara að nota lýsingarorðin mikill og lítill með bæði fjárhæð og upphæð en lýsingarorðin hár og lágur sem nú eru margfalt algengari. Það er því hægt að halda því fram að lofthæð sé að fara sömu leið og fjárhæð og upphæð fóru hundrað árum fyrr. Hvort fólk sættir sig við að talað sé um háa og lága lofthæð er svo smekksatriði. Ég er bara að benda á hver sé hugsanleg skýring á því að þetta virðist vera að breytast. Málbreytingar eiga sér nefnilega oftast einhverja ástæðu þótt hún liggi ekki alltaf í augum uppi.