Smellhitta, smellpassa og aðrar smell-sagnir

Í fyrradag rakst ég á fyrirsögnina „Brasilíumaðurinn smellhitti boltann“ á mbl.is. Ég hef svo sem ótal sinnum sé sögnina smellhitta en fór samt af einhverjum ástæðum að velta henni fyrir mér. Þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hana hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en í íslensk-enskri Orðabók Aldamóta á Snöru er hún þýdd 'smash'. Hún merkir 'hitta vel eða nákvæmlega' og væntanlega liggur sögnin smella að baki – ein merking hennar er 'hrökkva (á sinn stað), passa vel (á sínum stað)‚ ganga upp, klárast', t.d. þetta er allt að smella (saman). En smella merkir einnig 'gera snöggt hljóð' og e.t.v. vísar smell- í smellhitta einnig til smellsins sem verður þegar slegið er eða sparkað í bolta.

Eins og ég þóttist vita er sögnin ekki ýkja gömul – elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Víkurfréttum 1985: „Margeir notaði 6-járn, smellhitti og … „lenti inn á gríni og rúllaði beint í holu“.“ Þarna er sögnin notuð um golf og líka í næstelsta dæminu, „Bingó, hann smellhitti boltann“ í DV 1985, en í DV 1989 er merkingin óeiginleg: „Kringlan hefur gengið vel og með henni virðist Pálmi hafa smellhitt naglann á höfuðið.“ Þetta eru einu dæmin um sögnina fyrir 1992 en í DV það ár er hún fyrst notuð um fótbolta: „Ég smellhitti boltann og það var frábært að sjá hann í netinu.“ Eftir það fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og langflest eru úr fótboltamáli. Á tímarit.is eru tæp 170 dæmi um hana en í Risamálheildinni eru dæmin rúm 500.

Nokkrar aðrar samsettar sagnir með smell- sem fyrri lið má finna í Risamálheildinni. Þrettán dæmi eru um smellvirka, t.d. „Síðast en ekki síst er það svo meginatriðið, þetta samspil mynda og texta, sem smellvirkar“ í Morgunblaðinu 2008. Átta dæmi eru um smellganga, t.d. „Sumir hafa látið í sér heyra síðar og þá hefur allt smellgengið upp“ í Vísi 2015. Fjögur dæmi eru um smellfalla, t.d. „Allan Fall er að smellfalla inn í liðið“ í Morgunblaðinu 2008. Sögnin smellkyssa er hins vegar miklu eldri og líklega annars eðlis– elsta dæmi um hana er „augun ætluðu blátt áfram út úr hausnum á honum, þegar hann sá hana smellkyssa stjúpuna“ í Alþýðublaðinu 1951. Þar er væntanlega vísað til hljóðsins, enda orðið kossasmellur til – elsta dæmi um það frá 1943.

En langalgengasta sögnin með þennan fyrri lið er smellpassa sem mér fannst ég hafa kunnað alla tíð og hélt að væri gömul, er í raun litlu eldri en smellhitta ef marka má tímarit.is – elsta dæmið um hana er í Íþróttablaðinu 1978: „Einhver áhorfandanna hafði verið við þessum úrslitum búinn og dró upp úr pússi sínu gulllitaða kórónu sem smellpassaði á hálfsköllótt höfuð Stenzels.“ Fáein dæmi eru um sögnina frá næstu árum en það er ekki fyrr en um miðjan tíunda áratuginn sem hún fer að verða algeng og tekur svo við sér svo að um munar á þessari öld. Alls eru tæplega 2.600 dæmi um hana á tímarit.is og nærri 4.500 í Risamálheildinni. Þarna er augljóst að um er að ræða merkinguna ‚passa vel‘ en merkingin ‚gera snöggt hljóð‘ á ekki við.