Posted on Færðu inn athugasemd

Slef

Í innleggi hér í gær var sagt: „Hér í eina tíð heyrði maður og sagði slefa. Nú er slefan komin í hvorugkyn hjá fjölda fólks, eða var hún alltaf tvíkynja?“ Því er til að svara að upphaflega er orðið kvenkyns. Í Snorra-Eddu segir: „Hann grenjar illilega og slefa rennur úr munni hans.“ Í Íslenskri orðabók er kvenkynsorðið slefa skýrt 'vökvi sem rennur úr munni' en þar er einnig að  finna hvorugkynsorðið slef sem er skýrt 'það að slefa; slefa, munnvatnsrennsli'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slef skýrt 'munnvatn sem rennur út úr munninum, einkum á ungbörnum' en slefa er aðeins skýrt 'slef'. Það er því ljóst að þar er litið á hvorugkynsmyndina slef sem aðalmyndina. Þarna hefur greinilega orðið breyting á notkun orðsins á undanförnum áratugum.

Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynið slef er í Lesbók Morgunblaðsins 1926 þar sem sagt er frá „rannsóknum Pawlow’s, hins rússneska lífeðlisfræðings, á slefi og meltingarvökvum hunda“. En síðan sést það ekki fyrr en í kvæði í Speglinum 1970: „Þar norræn froða og norrænt slef / norrænum vall úr munni.“ Upp úr þessu fer dæmum að fjölga. Í Hús og búnaður 1972 segir: „úr munnvikum hans draup slef milli slappra varanna.“ Í Kvæðum Þórarins Eldjárn frá 1974 segir: „og Grettir verður undireins við það / svo hræddur að hann heldur varla slefi.“ Í Vikunni 1979 segir: „Inn um hana sýgst slef, vatn og annað.“ Í Lystræningjanum 1981 segir: „Grænu slefi?“ Í Hallærisplanið eftir Pál Pálsson frá 1982 segir: „Hún var að drukkna úr slefi.“

Í fyrsta dæminu hefur slef merkinguna ‚það að slefa‘ en í öllum hinum dæmunum merkir það ‚slefa‘ sem er aðalmerking þess í nútímamáli. Hvorugkynið verður smátt og smátt algengara á níunda og einkum tíunda áratugnum og sækir enn í sig veðrið. Samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt algengara en kvenkynið á síðustu árum – myndin slefa virðist á útleið úr málinu. Það er ekki gott að vita hvers vegna þetta hefur breyst, en þó gæti verið um að ræða áhrif frá hvorugkynsorðum með -ef- í stofni sem eru nokkur – kvef, nef, sef, skref, stef, þref o.fl. Hins vegar er slefa eina kvenkynsorðið með -ef- (fyrir utan ellefa sem er dálítið sérstakt orð). En svo má ekki gleyma því að slef var til í málinu fyrir, í annarri merkingu – eða öðrum merkingum.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðabók gat slef merkt 'söguburður, þvættingur', eins og í slefberi. Í Þjóðólfi 1900 segir: „Það eru sorpblöð ein, en heiðvirð blöð engin, sem láta sér sæma að bera út um sveitir slef og lygasögur.“ Í þessari merkingu, þar sem væntanlega er um líkingu að ræða (að bera út sögur líkt við að slefa), er orðið frá 17. öld. En í Íslenskri orðabók kemur líka fram að orðið gat að auki merkt 'það að draga (skip, bát) á eftir sér, dráttur'. Í Einherja 1936 segir: „Brúni hafði brotið stýri og tók Garðar hann þegar í slef áleiðis til hafnar.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Gætu sjerstakir dráttarbátar þá farið með marga slíka þróarpramma á slefi.“ Þetta er tökuorð úr dönsku þar sem talað er umtage / have nogen / noget på slæb.

Merkingin 'söguburður, þvættingur' í orðinu slef virðist vera alveg horfin úr málinu og merkingin ‚dráttur, tog‘ virðist vera orðin frekar sjaldgæf. Notkun orðsins í þessum merkingum hefur því farið dalandi á sama tíma og notkun þess í merkingunni 'slefa' hefur aukist. Þarna var sem sé tiltækt orð sem ekki var lengur mikið notað í eldri merkingum sínum og þess vegna hægt að taka það til handargagns og fara að nota það í nýrri merkingu, án þess að það rækist alvarlega á við eldri merkingarnar. Við það bætist svo að stofngerðin er dæmigerðari fyrir hvorugkynsorð en kvenkynsorð eins og áður segir. Þetta er gott dæmi um kynskipti sem hafa orðið á stuttum tíma, síðustu þrjátíu árum eða svo. Sumar breytingar líða hjá án þess að við tökum eftir þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Til skamms tíma

Í frétt á vef Feykis stendur í dag: „Það má geta þess að Arna Rún er svolítill Króksari, bjó til skamms tíma í foreldrahúsum hjá Óskari Jónssyni lækni og Aðalheiði Arnórsdóttur.“ Það vill svo til að ég þekki til á Króknum og veit því að til skamms tíma merkir þarna 'í stuttan tíma' – annars hefði ég skilið þetta sem 'þar til nú fyrir stuttu'. Á Vísindavefnum var eitt sinn spurt: „Mig langar líka að fá að vita um „til skamms tíma“. Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði „í stuttan tíma“ án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi „var lengi en hætti fyrir stuttu“, sem sagt „var kennari til skamms tíma“ þýðir „var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan“.“

Ég ólst líka upp við þessa merkingu, og í svari Guðrúnar Kvaran var sagt að merkingin væri 'fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu' og vísað því til staðfestingar í dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar – og einnig í Íslenska orðabók, þar sem þó eru gefnar tvær merkingar – 'í stuttan tíma' og 'þar til nú fyrir stuttu'. Það er ljóst að mjög oft hefur sambandið fyrrnefndu merkinguna og sú síðarnefnda er útilokuð, t.d. ef setningin er í nútíð. Í Samtíðinni 1943 segir: „Húsgögnin eru fremur fátækleg og flest fengin að láni hér og hvar í þorpinu, því að tjaldað er til skamms tíma.“ Í Vísi 1946 segir: „Samningurinn er gerður til skamms tíma“. Í DV 1993 segir: „má gefa út sérstakt vegabréf sem gildir til skamms tíma og rennur út að áætlaðri ferð lokinni.“

Sé setningin aftur á móti í þátíð flækist málið. Stundum er þó ótvírætt að merkingin er 'í stuttan tíma', eins og í „Samningurinn var til skamms tíma“ í Morgunblaðinu 2020. En oft verður samhengið að skera úr. Í Tímanum 1987 segir: „Nú í haust fékk Natalja loks leyfi til að heimsækja mann sinn til München. […] Leyfið gilti til skamms tíma.“ Þarna er merkingin augljóslega 'í stuttan tíma'. Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 segir: „Fyrirkomulagið var í gildi til skamms tíma og þurfti úrskurð alþjóðadómstóls til að afnema það“ en í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur.“ Þarna sýnir samhengið ótvírætt að fyrra dæmið merkir 'þar til nú fyrir stuttu' en það seinna 'í stuttan tíma'.

Í sjálfu sér má segja að það liggi miklu beinna við að skilja til skamms tíma sem 'í stuttan tíma' en 'þar til nú fyrir stuttu' – í fyrrnefnda tilvikinu hafa orðin sína venjulegu merkingu hvert fyrir sig, en í síðarnefnda tilvikinu hefur sambandið sem heild ákveðna merkingu sem ekki verður ráðin af merkingu einstakra orða þess. Þetta má bera saman við hliðstæð sambönd eins og til langs tíma og til lengri tíma sem merkja 'í langan tíma' og til stutts tíma, til styttri tíma og til skemmri tíma sem merkja 'í stuttan tíma'. Í öllum þessum samböndum halda orðin venjulegri merkingu sinni og því er ekkert undarlegt að skilningur málnotenda á sambandinu til skamms tíma breytist og farið sé að skilja það á hliðstæðan hátt og hin samböndin, þ.e. 'í stuttan tíma'.

Þetta er alveg eðlilegur skilningur og því ekki lengur hægt að halda því fram að til skamms tíma merki eingöngu 'þar til nú fyrir stuttu'. Í Málfarsbankanum segir líka: „Orðasambandið til skamms tíma merkir að jafnaði: þar til fyrir stuttu.“ Athyglisvert er að þarna er sagt „að jafnaði“ og því viðurkennt að þessi merking er ekki algild. Það er hins vegar óheppilegt að þessi breytti skilningur á sambandinu leiðir til þess að í mörgum tilvikum er það tvírætt og þarf að reiða sig á samhengi til að skilja það eins og til var ætlast – og í sumum tilvikum dugir mállegt samhengi ekki einu sinni, heldur þarf þekkingu á aðstæðum eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi. En við það verðum við líklega bara að búa – það er enginn heimsendir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er að bera virðingu fyrir það sama og virða?

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Guðveig segist bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum.“ Þetta er algeng málnotkun og hvarflar ekki að mér að nýta í hana eða halda því fram að hún sé röng í einhverjum skilningi, en þarna hefði ég fremur sagt Guðveig segist virða þessi sjónarmið. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið virðing skýrt 'viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður' og í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'álit, heiður; það að virða'. Þótt sögnin virða sé vissulega skýrð 'bera virðingu fyrir' í Íslenskri nútímamálsorðabók mætti skilja skýringarnar á nafnorðinu virðing á þann veg að það sé einkum fólk fremur en skoðanir sem getur notið virðingar – sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Þetta er samt ekki svo einfalt – það má finna ótal gömul dæmi um að virðing sé notað um annað en fólk. Í Kvennablaðinu 1913 segir: „þær bera þá virðingu fyrir þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar.“ Í Íslandi 1927 segir: „Maður hefir ekki getað séð það á blaðinu, að það bæri sérlega virðingu fyrir þessu ríki.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Ég hafði borið svo óstjórnlega virðingu fyrir þessu bréfi.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „En alt í einu hjer um daginn fjekk jeg djúpa virðingu fyrir þessu gamla húsi.“ Í Morgunblaðinu 1955 segir: „Við verðum að bera mikla virðingu fyrir þessu framtaki.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „Þegar maður gengur um götur Varsjár, setur mann hljóðan af virðingu fyrir þessu minnismerki.“

Í staðinn fyrir virðing væri í flestum eða öllum þessum dæmum hægt að setja orðið lotning sem einmitt er skýrt 'djúp virðing' bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. En það eru líka dæmi frá ýmsum tímum um að bera virðingu fyrir skoðunum eða sjónarmiðum og þar væri tæpast eðlilegt að tala um lotningu. Í Dagskrá 1899 segir: „látum oss líka bera virðingu fyrir skoðunum annara manna.“ Í Heimskringlu 1902 segir: „Hann sýndi virðingu fyrir skoðununum og talaði heiðarlega um mótstöðumenn sína.“ Í Alþýðublaðinu 1966 segir: „en berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars.“ Í Tímanum 1982 segir: „Staðreyndin er jafnframt sú að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum landverndarmanna.“

Í þessum dæmum myndi ég nota sögnina virða í stað bera virðingu fyrir. Mér finnst virða í samhengi af þessu tagi merkja 'taka tillit til, taka mark á, taka alvarlega, gera ekki lítið úr' eða eitthvað slíkt fremur en tengjast áliti eða heiðri. En mér sýnist notkun sambandsins bera virðingu fyrir í þessari merkingu hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Alþingisræðum í Risamálheildinni eru 129 dæmi um bera virðingu fyrir skoðun / sjónarmiði, þar af aðeins ellefu frá því fyrir aldamót. Auðvitað er ekkert athugavert við það eins og áður segir – þetta sýnir bara að við leggjum ekki öll nákvæmlega sömu merkingu í ýmis orð og orðasambönd. Það er í fínu lagi, svo framarlega sem það veldur ekki alvarlegum misskilningi – sem sjaldnast er.