Slef

Í innleggi hér í gær var sagt: „Hér í eina tíð heyrði maður og sagði slefa. Nú er slefan komin í hvorugkyn hjá fjölda fólks, eða var hún alltaf tvíkynja?“ Því er til að svara að upphaflega er orðið kvenkyns. Í Snorra-Eddu segir: „Hann grenjar illilega og slefa rennur úr munni hans.“ Í Íslenskri orðabók er kvenkynsorðið slefa skýrt 'vökvi sem rennur úr munni' en þar er einnig að  finna hvorugkynsorðið slef sem er skýrt 'það að slefa; slefa, munnvatnsrennsli'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slef skýrt 'munnvatn sem rennur út úr munninum, einkum á ungbörnum' en slefa er aðeins skýrt 'slef'. Það er því ljóst að þar er litið á hvorugkynsmyndina slef sem aðalmyndina. Þarna hefur greinilega orðið breyting á notkun orðsins á undanförnum áratugum.

Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynið slef er í Lesbók Morgunblaðsins 1926 þar sem sagt er frá „rannsóknum Pawlow’s, hins rússneska lífeðlisfræðings, á slefi og meltingarvökvum hunda“. En síðan sést það ekki fyrr en í kvæði í Speglinum 1970: „Þar norræn froða og norrænt slef / norrænum vall úr munni.“ Upp úr þessu fer dæmum að fjölga. Í Hús og búnaður 1972 segir: „úr munnvikum hans draup slef milli slappra varanna.“ Í Kvæðum Þórarins Eldjárn frá 1974 segir: „og Grettir verður undireins við það / svo hræddur að hann heldur varla slefi.“ Í Vikunni 1979 segir: „Inn um hana sýgst slef, vatn og annað.“ Í Lystræningjanum 1981 segir: „Grænu slefi?“ Í Hallærisplanið eftir Pál Pálsson frá 1982 segir: „Hún var að drukkna úr slefi.“

Í fyrsta dæminu hefur slef merkinguna ‚það að slefa‘ en í öllum hinum dæmunum merkir það ‚slefa‘ sem er aðalmerking þess í nútímamáli. Hvorugkynið verður smátt og smátt algengara á níunda og einkum tíunda áratugnum og sækir enn í sig veðrið. Samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt algengara en kvenkynið á síðustu árum – myndin slefa virðist á útleið úr málinu. Það er ekki gott að vita hvers vegna þetta hefur breyst, en þó gæti verið um að ræða áhrif frá hvorugkynsorðum með -ef- í stofni sem eru nokkur – kvef, nef, sef, skref, stef, þref o.fl. Hins vegar er slefa eina kvenkynsorðið með -ef- (fyrir utan ellefa sem er dálítið sérstakt orð). En svo má ekki gleyma því að slef var til í málinu fyrir, í annarri merkingu – eða öðrum merkingum.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðabók gat slef merkt 'söguburður, þvættingur', eins og í slefberi. Í Þjóðólfi 1900 segir: „Það eru sorpblöð ein, en heiðvirð blöð engin, sem láta sér sæma að bera út um sveitir slef og lygasögur.“ Í þessari merkingu, þar sem væntanlega er um líkingu að ræða (að bera út sögur líkt við að slefa), er orðið frá 17. öld. En í Íslenskri orðabók kemur líka fram að orðið gat að auki merkt 'það að draga (skip, bát) á eftir sér, dráttur'. Í Einherja 1936 segir: „Brúni hafði brotið stýri og tók Garðar hann þegar í slef áleiðis til hafnar.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Gætu sjerstakir dráttarbátar þá farið með marga slíka þróarpramma á slefi.“ Þetta er tökuorð úr dönsku þar sem talað er umtage / have nogen / noget på slæb.

Merkingin 'söguburður, þvættingur' í orðinu slef virðist vera alveg horfin úr málinu og merkingin ‚dráttur, tog‘ virðist vera orðin frekar sjaldgæf. Notkun orðsins í þessum merkingum hefur því farið dalandi á sama tíma og notkun þess í merkingunni 'slefa' hefur aukist. Þarna var sem sé tiltækt orð sem ekki var lengur mikið notað í eldri merkingum sínum og þess vegna hægt að taka það til handargagns og fara að nota það í nýrri merkingu, án þess að það rækist alvarlega á við eldri merkingarnar. Við það bætist svo að stofngerðin er dæmigerðari fyrir hvorugkynsorð en kvenkynsorð eins og áður segir. Þetta er gott dæmi um kynskipti sem hafa orðið á stuttum tíma, síðustu þrjátíu árum eða svo. Sumar breytingar líða hjá án þess að við tökum eftir þeim.