Það slitnar ekki slefan

Undir nafnorðinu slefa í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar er að finna sambandið það slitnar ekki slefan á milli þeirra sem sagt er „óformlegt“ og vera notað á tvennan hátt: '1. (í háði, um ástfangið fólk) þau láta sífellt vel hvort að öðru, eru alltaf að kyssast' og '2. (niðrandi) þeir (þær …) eru algerlega sammála, dást hvor af öðrum'. Fyrri merkingin er auðvitað mjög myndræn lýsing en sú seinni líking við hana. Þessi notkun sambandsins virðist ekki vera mjög gömul – hana er t.d. hvorki að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 né annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Elsta dæmi sem ég finn um hana er frá 1985, en rétt er að benda á að óformlegt orðalag af þessu tagi getur tíðkast í talmáli árum saman án þess að komast á prent.

Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Finnst ykkur kannski breska stjórnin æðislega líkleg til að lenda í andstöðu við Bandaríkin, þótt ekki slitni slefan á milli Reagans og Thatschers.“ Í Degi 1988 segir: „Þetta var fyrir um fjórum mánuðum og það hefur varla slitnað slefið á milli þeirra síðan.“ Í Vikunni 1990 segir: „Það hallærislegasta sem ég sé er þegar slitnar ekki slefið milli fólks við næsta borð.“ Í Alþýðublaðinu 1995 segir: „Það hefur ekki ennþá slitnað slefan á milli þeirra Kristjáns Ragnarssonar og Þorsteins Pálssonar í að viðhalda þessu kerfi.“ Í Degi 1999 segir: „Þessa dagana slitnar ekki slefið á milli stjórnarflokkanna.“ Í DV 2011 segir: „Við vorum í skíðaferð með fólki sem var svo ástfangið að það slitnaði ekki slefið á milli þeirra.“

Þarna er að finna dæmi um bæði hina lýsandi merkingu sambandsins og yfirfærðu merkinguna, og ýmist er notuð kvenkynsmyndin slefa eða hvorugkynsmyndin slef sem hefur sótt mjög á síðustu áratugina. Í Risamálheildinni eru um 75 dæmi um sambandið, meirihlutinn vissulega af samfélagsmiðlum en drjúgur hluti þó úr formlegra máli, þ. á m. úr ræðum á Alþingi. En þótt þessi notkun sambandsins virðist ekki ýkja gömul hefur það verið notað áður í annarri merkingu. Það er að finna undir nafnorðinu slefa í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, skýrt 'de ævler og snakker i det uendelige (siges om Sladdertasker)', þ.e. 'þær rausa og masa út í eitt (sagt um kjaftakerlingar)' – sagt „Talem.“, þ.e. talmál, og merkt Skaftafellssýslu.

Hvorugkynsorðið slef getur merkt 'söguburður, þvættingur' eins og fram kemur í Íslenskri orðabók en þarna er kvenkynsmyndin slefa greinilega höfð í sömu merkingu. Þetta er sama orðið og slef(a) í merkingunni 'munnvatn sem rennur út úr munninum' og væntanlega verið að líkja kjaftasögunum sem streyma út úr munninum við slef(u). Það er hins vegar óljóst hvernig stendur á því að þetta samband sem sagt er staðbundið í talmáli fyrir hundrað árum dúkkar upp í annarri merkingu meira en hálfri öld síðar. Breiddist það út og lifði allan tímann og fékk svo nýja merkingu þegar hætt var að nota slef í merkingunni ‚söguburður, þvættingur‘? Eða rakst einhver á það í Íslensk-danskri orðabók, fannst það fyndið og tók það upp í nýrri merkingu?