Breytum atvinnu- og launastefnu í þágu íslenskunnar

Í dag var ég að tala við innflytjanda sem hefur búið hér í tíu ár. Við töluðum saman á ensku sem er þó ekki móðurmál hans – hann sagðist skilja dálítið í íslensku en ekki nóg til að geta tekið þátt í samræðum. Ég kunni ekki við að spyrja hvers vegna hann hefði ekki lært íslensku en heyrðist á honum að aðalástæðan væri sú að hann hefði ekki þurft á því að halda – þótt hann þurfi að hafa samskipti við Íslendinga í starfi sínu er hann ekki í afgreiðslu- eða þjónustustarfi og það er vel þekkt að vegna almennrar enskukunnáttu Íslendinga er enginn vandi að búa í landinu árum saman án þess að læra málið. Það er vont fyrir íslenskuna, getur verið truflandi fyrir Íslendinga, tvíbent fyrir fólkið sem hingað kemur – en gott fyrir atvinnulífið.

Það eru nefnilega atvinnurekendur sem bera meginábyrgð á því að hér skulu búa tugir þúsunda fólks sem ekki kann íslensku. Atvinnulífið kallar eftir fleira og fleira fólki og gerir enga kröfu um íslenskukunnáttu. Eðlilegt væri að fólki sem hingað kemur til að vinna í afgreiðslu- og þjónustustörfum væri boðið – og gert skylt – að læra íslensku sér að kostnaðarlausu, á vinnutíma. En atvinnurekendur myndu aldrei samþykkja það vegna þess kostnaðar sem af því leiddi. Þegar er talað um að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi stöðvast vegna þess að Ísland sé of dýrt, og við séum ekki samkeppnishæf. Ókeypis íslenskukennsla á vinnutíma myndi vitanlega kosta sitt og fara út í verðlagið og þar með auka verðbólgu og draga úr samkeppnishæfi landsins.

Hinn kosturinn er að ríkið taki þennan kostnað á sig. Eins og ég benti á um daginn er ríkið nýbúið að taka á sig 20 milljarða á ári næstu fjögur ár í tengslum við kjarasamninga og fáeinir milljarðar í íslenskukennslu til viðbótar breyta kannski ekki öllu, en myndu samt auka skuldir ríkisins og þar með sennilega tefja fyrir lækkun vaxta og verðbólgu. En miðað við núverandi atvinnustefnu eru bara tveir kostir: Annars vegar að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, með þeim kostnaði sem því fylgir, og gera þá kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum. Hins vegar að gera ekki neitt – auka ekki íslenskukennslu að marki og gera engar kröfur um íslenskukunnáttu umfram það sem nú er. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að íslenskan hörfar.

Vegna kostnaðar er ólíklegt að fyrri leiðin verði farin, en sú seinni er mjög ófýsileg. Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms. Jafnframt er mikilvægt að hækka lægstu laun því að auðvitað verða áfram störf sem ekki krefjast menntunar.

Sjálfsagt finnst mörgum þetta óraunhæft, og kannski er það rétt. Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn – því að það er það sem við erum að gera. Við erum að búa til tvískipt þjóðfélag – íslenskumælandi yfirstétt og svo lágstétt fólks sem talar oft litla íslensku og er fast í láglaunastörfum. Það sem verra er – hætta er á að börn þessa fólks nái ekki heldur fullkomnu valdi á íslensku, detti út úr skóla og séu föst í hlutskipti foreldranna. Það er óviðunandi og hættulegt lýðræðinu. Við verðum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég veit að þetta hugnast engum, hvorki stjórnvöldum né almenningi, en það skortir skilning eða vilja eða kjark eða djörfung eða fé til að grípa til róttækra ráðstafana.