Getur breidd verið meiri en lengd?

Einu sinni hringdi í mig maður sem hafði verið að grúska í gömlum heimildum þar sem talað var um kirkjugarð sem var 37 metrar á lengd og 43 metrar á breidd. Hann var að velta fyrir sér hvort það gæti staðist að orða þetta svona. Getur breidd verið meiri en lengd? Og þá við hvaða aðstæður? Hvernig á að ákvarða hvað er lengd og hvað breidd einhvers tvívíðs fyrirbæris? Þessar spurningar koma sjaldan upp vegna þess að yfirleitt virðist fólki finnast þetta augljóst – en hvað er það sem gerir það augljóst? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er lengd skýrt 'það hversu langt eitthvað er' og langur skýrt 'mikill á lengdina, t.d. band eða vegur'. Aftur á móti er breidd skýrt 'það hversu breitt eitthvað er', og breiður skýrt 'mikill á þverveginn, víður'.

Þegar fyrirbærið sem um ræðir er á hreyfingu eða getur hreyfst er lengd venjulega notað um stefnuna – þegar talað er t.d. um ár er lengd fjarlægðin frá upptökum til ósa en breidd fjarlægðin milli bakka. Jökulsá á Breiðamerkursandi er ekki nema 500 metra löng og styttist ár frá ári, og svo gæti farið á endanum að lengd hennar yrði minni en breiddin – en það yrði samt haldið áfram að nota orðin lengd og breidd á þann hátt sem áður var lýst. Þegar um er að ræða t.d. hús með mæni held ég að lengd vísi alltaf til stefnu mænisins jafnvel þótt það gæti í undantekningartilvikum leitt til þess að lengd hússins yrði minni en breidd þess. Því má segja að lengd vísi í einhverjum skilningi til stefnu eða hreyfingar en breidd til fasta eða kyrrstöðu.

Langoftast er það samt þannig að lengd þess sem um er að ræða er meiri en breidd þess þar sem hægt er að finna einhverja tengingu við stefnu eða hreyfingu. En það er ekki alltaf hægt, t.d. þegar um er að ræða landspildu, hús með flötu þaki, o.m.fl. Þá er venja að lengri hliðarnar séu kallaðar lengd en þær styttri breidd – nema einhverjar aðstæður geri kleift að gera upp á milli. Ef kirkja stæði í kirkjugarðinum sem nefndur var í upphafi væri eðlilegt að fara eftir henni – lengd garðsins væri samhliða lengd kirkjunnar, jafnvel þótt það leiddi til þess að lengd hans yrði minni en breidd. Einnig gæti garðshliðið ráðið þessu – það segir til um stefnu inn í garðinn og þess vegna er eðlilegt að hliðarnar samhliða þeirri stefnu séu kallaðar lengd garðsins.