Móari

Í nýlegum úrskurði mannanafnanefndar var nafninu Móari hafnað á þeim forsendum að það sé „samnafn, nánar tiltekið íbúaheiti, þ.e. Móari er sá sem býr eða á rætur að rekja til bæjarins Ysta-Móa í Fljótum“. Síðan segir: „Íbúaheiti hafa ekki verið notuð sem eiginnöfn og nöfn af því tagi eru ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli og brjóta gegn íslensku málkerfi. Er því ekki unnt að fallast á eiginnafnið Móari.“ Það er reyndar ekki traustvekjandi að ekki er farið rétt með nafn bæjarins, sem heitir Ysti-Mór, ekki Ysti-Mói – einnig eru til Mið-Mór og Syðsti-Mór. Nú má vera að eitthvað hafi verið talað um Móara en þótt ég sé Skagfirðingur hef ég aldrei heyrt það – og engin dæmi eru um það á netinu a.m.k.

Það er því ákaflega hæpið að banna mannsnafnið Móari á þeim forsendum að um íbúaheiti sé að ræða auk þess sem fordæmi eru fyrir nöfnum dregnum af íbúa- og staðaheitum, svo sem Aðalvíkingur og Reykdal. Telji mannanafnanefnd nafnið Móari „ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli og brjóta gegn íslensku málkerfi“ hefði hins vegar komið til greina að vísa til þess að ekki er hefð fyrir viðskeytinu -ari í mannanöfnum. En hvað sem því líður er óheppilegt að hafna nöfnum sem eru óumdeilanlega af íslenskum rótum um leið og verið er að samþykkja (réttilega) fjöldann allan af erlendum nöfnum. Þetta er enn eitt dæmi um þær ógöngur sem mannanafnanefnd leiðist út í við að framfylgja óskýrum og úreltum lögum.