Að negla boltann eða negla boltanum

Það er vel þekkt að íþróttamál er sérstakt um margt, einkum í orðafari og setningagerð. Í dag fékk ég spurningu um fallstjórn sagna sem notaðar eru í fótboltamáli, eins og negla, flengja og hreinsa. Í fyrirspurninni sagði: „Þessar sagnir taka venjulega með sér þolfall en í knattspyrnu er talað um að „negla boltanum í netið“ og „flengja boltanum fyrir markið“. Það er svo til beggja blands hvort fólk segir „hreinsa boltann í burtu“ eða „hreinsa boltanum frá marki“.“ Fyrirspyrjandi vildi svo forvitnast um hvort ég kynni einhverja skýringu á þágufallinu með þessum sögnum, og hvort ég hefði skoðun á því hvort ætti að nota þolfall eða þágufall í samböndum eins og hreinsa boltann frá marki eða hreinsa boltanum frá marki.

Því er til að svara að þágufall með negla í íþróttamáli er vel þekkt. Jón G. Friðjónsson skrifaði um þetta í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 og sagði: „Vafalaust eru allir sammála um að við segjum: negla naglann enda er andlagið þar beint. Í máli íþróttamanna ber hins vegar oft við að talað er um að ?negla knettinum/boltanum, t.d.: hann þarf ekki annað en negla boltanum á markið […]. Hér væri eðlilegt og í samræmi við málkerfið að segja negla knöttinn/boltann (í mark). Skýringin á þessu nýmæli blasir við, sögnin skjóta e-u/boltanum hefur áhrif á notkun sagnarinnar negla, sbr. einnig samböndin þruma/(þrusa) boltanum og dúndra boltanum [< d. dundre]. Af sama meiði er notkunin ?hamra knettinum.“

Sagnirnar negla og hamra, sem Jón G. Friðjónsson nefndi, og flengja og hreinsa, sem fyrirspyrjandi nefndi, taka allar með sér þolfall frá fornu fari, og það gera þær líka í eldri dæmum með bolti og knöttur. Elsta dæmi um negla boltann/knöttinn á tímarit.is er frá 1947, um hamra með þolfalli frá 1961, um hreinsa með þolfalli frá 1972, og um flengja með þolfalli frá 1974. Þágufallsdæmin eru í öllum tilvikum yngri – elsta dæmi um negla boltanum/knettinum er frá 1978, um hamra með þágufalli frá 1975, um hreinsa með þágufalli frá 2000, og um flengja með þágufalli frá 2003. Það er ljóst að þágufallið hefur smám saman verið að koma inn og tíðni þess að aukast á síðustu fimmtíu árum en þolfallið tíðkast þó enn með þessum sögnum.

Í rannsóknarverkefninu „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ sem Höskuldur Þráinsson stýrði á árunum upp úr 2005 var fólk á ýmsum aldri beðið að meta setningarnar Sóknarmaðurinn negldi boltanum í netið og Hún negldi boltann í markið af löngu færi. Niðurstaðan var sú að mikill meirihluti þátttakenda samþykkti báðar gerðirnar, bæði þolfall og þágufall, en hlutfall þeirra sem samþykktu þágufall var þó mun hærra hjá yngstu hópunum. Í Risamálheildinni er þágufallið yfirgnæfandi – um 60 dæmi um þolfallið en nærri hálft sjötta hundrað um þágufallið. Hlutfallið er öfugt með hamra – þar er hátt á sjöunda hundrað dæma um þolfallið en 330 um þágufallið. Þolfallsdæmi um hreinsa eru 600 en þágufallsdæmi tæp 70 – en flengja er sjaldgæf.

En sumar sagnir af þessu tagi taka ævinlega með sér þágufall, eins og dúndra, þruma og þrusa sem Jón G. Friðjónsson nefnir. Elsta dæmi um dúndra bolta/knetti á tímarit.is er frá 1951, elsta dæmi um þruma frá 1955, og elsta dæmi um þrusa frá 1979. Auk þess má nefna þrykkja sem kemur fyrir í texta Ómars Ragnarssonar um Jóa útherja frá 1969. Sú sögn er gömul í málinu í merkingunni 'prenta (e-ð/á e-ð)' og stýrir þá þolfalli, en í setningum eins og þrykkja boltanum í markið (netið) sem gefin er í Íslenskri orðabók og skýrð 'skora með föstu skoti á stuttu færi' tekur hún ævinlega þágufall. Það sem er sameiginlegt með öllum þessum sögnum er að þegar þær eru notaðar í íþróttamáli vísa þær til snöggrar og kraftmikillar hreyfingar.

Eins og Jón G. Friðjónsson nefnir er líklegt að sagnir eins og skjóta, þruma, þrusa og dúndra sem alltaf taka með sér þágufall hafi áhrif á sagnir sem notaðar eru í svipaðri merkingu og áður tóku með sér þolfall – negla, hamra, flengja, hreinsa og skalla, sem stöku sinnum kemur fyrir með þágufalli. En það er samt rétt að hafa í huga að fallstjórn þessara sagna breytist ekki í öðru samhengi og því er ljóst að málnotendur tengja ákveðna merkingu við þágufallið. Jón segir: „Þeir sem kjósa að nota sögnina hamra í nýrri merkingu ('skjóta (knetti) fast') ættu að virða málvenjuna og hamra knöttinn/boltann.“ En þarna hefur undanfarið skapast ný og regluleg málvenja um notkun þágufalls í tiltekinni merkingu – engin ástæða er til að amast við henni.